Evrópski seðlabankinn ákvað rétt í þessu að lækka stýrivexti sína um 25 punkta og eru því meginvextir bankans í 3,75%.
Um er að ræða fyrstu vaxtalækkun bankans í fimm ár en Evrópski Seðlabankinn er jafnframt á undan þeim bandaríska og Englandsbanka að lækka vexti.
Ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskuldabréfa til tveggja ára hækkaði upp í 3% í kjölfar ákvörðunarinnar.
Samkvæmt Financial Timesbenda hreyfingar á mörkuðum til þess að fjárfestar séu sannfærðir um að bankinn lækki vexti aftur í septembermánuði.
Christine Lagarde, forseti Evrópska seðlabankans, mun veita framsýna leiðsögn á blaðamannafundi innan skamms en hún sagði fyrir mánuði síðan að hún væri sannfærð um að evrusvæðið væri að ná tökum á verðbólgunni.
Ársverðbólga á evrusvæðinu var í kringum 10% árið 2022 en mælist nú í kringum 2% sem er nálægt verðbólgumarkmiði bankans.
Verðbólgan hækkaði þó óvænt í maímánuði og var 2,6% á ársgrundvelli og óttuðust margir að vextir yrðu mögulega óbreyttir.