„Við erum bara komin á þann stað að við förum ekki lengra með vextina fyrr en við fáum verðbólguna mikið meira niður. Hún verður að fara meira niður áður en við höldum áfram í þessu,“ sagði Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu á kynningarfundi Seðlabankans í morgun.

Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti í morgun um 0,25 prósentur, úr 7,75% í 7,5%. Nefndin sagði þó að hún teldi aðstæður ekki hafa skapast svo að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar.

Prógrammið búið ef verðbólgan eykst

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri áréttaði á fundinum að 25 punkta lækkun vaxta sé ekki að fara að breyta aðhaldsstiginu „með nokkrum hætti“.

„Það sem peningastefnunefnd lýsti yfir fyrir núna ári síðan er það nokkurn veginn að við ætlum að halda eitthvað í kringum 350-400 punkta aðhaldi og lækka stýrivexti samhliða lækkun verðbólgu. Þeirri stefnu höfum við fylgt við síðustu fimm ákvarðanir,“ sagði Ásgeir.

Það eru þrír mánuðir í næstu ákvörðun. Við erum að sjá verðbólgu núna lækka ef þú lítur á verðbólguspána, spurningin er hvað hún er að fara gera í haust. Það er alveg sjálfkrafa að ef hún tekur sig aftur upp næst þá getum við ekki lækkað vexti meira, þá er þetta prógramm búið í bili.“

Ásgeir sagði að viðmið bankans um 350-400 punkta raunvaxtaaðhald séu ekki nákvæm vísindi en nefndin telji það nægjanlegt til að kæla hagkerfið. „Þessi kælingarmeðferð heldur áfram.“

„Það sem er kannski alvarlegt, og við reyndum að skrifa inn í yfirlýsinguna, hvort að þessi stefna geti haldið áfram - hvort við getum lækkað vexti samhliða því að verðbólga lækki. Ég held að sumarið verði að einhverju leyti að skera úr um það.“

Ásgeir sagði þá sviðsmynd sem Seðlabankinn vonist mest eftir sé mjög mjúk lending hagkerfisins og verðbólgan komi niður.

„Við skulum bara vona að það gangi eftir, en ef það gengur ekki þá erum við ekki að fara að geta lækkað raunvaxtaaðhaldið.“

Umframframboð á fasteignamarkaði ekki skilað sér

Verðbólga mældist 4,2% í apríl. Nýbirt spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólguna muni haldast nálægt 4% út árið en taka síðan að hjaðna í markmið.

„Ef að verðbólguspáin gengur eftir eins og hún er sett fram, það er náttúrulega mikil óvissa um hvernig allt mun þróast, þá eru ekki forsendur fyrir frekari lækkun vaxta. Það er nokkuð skýrt,“ sagði Ásgeir.

Ný verðbólguspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum sem kom út í morgun.

Hann sagði ýmsa þætti sem ættu að hafa ýtt verðbólguna niður ekki raungerst. Til að mynda hafi styrking krónunnar ekki komið fram í lækkun á innflutningsverðlagi og lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu ekki leitt til samsvarandi lækkunar eldsneytisverðs hér á landi.

„Það eru ýmsir þættir sem hafa ekki komið fram, eins og á fasteignamarkaði, þar er umframframboð að byggjast upp – það hefur ekki enn þá komið fram,“ sagði Ásgeir. Hann velti því fyrir sér fyrr á fundinum hvort það fari ekki að myndast meiri þrýstingur niður á við á fasteignaverð.

Á móti kemur að launahækkanir hafi verið miklu meiri heldur en Ásgeir gerði ráð fyrir. Þannig hafi launavísitala á fyrsta fjórðungi hækkað um 8,3% milli ára. Þá hafi hann áhyggjur af því að innlend framleiðsla sé að hækka í verði.

„Það eru aðeins áhyggjur af því að innlendar vörur skuli vera að hækka svona mikið. Að það skuli bara hafa verið tekið átak um það að hækka verð núna á vormánuðum, sem tölurnar sýna.“

Þörf á markverðri lækkun verðbólgunnar

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, spurði hvort nefndi væri farin að horfa minna til verðbólguvæntinga við ákvarðanir sínar og fyrir vikið meira á þróun verðbólgunnar sjálfrar.

Ásgeir sagði að verðbólguvæntingar og tólf mánaða taktur verðbólgunnar séu tengd að einhverju leyti. Hann endurtók það sem hann sagði á síðasta kynningarfundi peningastefnunefndar að hún hafi áhyggjur af síðustu mílunni við að ná verðbólgu í markmið.

„Eins og þú veist, þá höfum við áhyggjur af því að akkeri verðbólguvæntinga losni. Við höfum verið að ná því niður. Það mögulega gerir það að verkum að við þurfum hærra raunvaxtastig til lengri tíma.“

Þórarinn sagðist halda að nefndin sé komin að þeim tímapunkti að „það verði erfitt að sjá verðbólguvæntingar fara markvert niður þangað til verðbólgan fer markvert niður“.

„Eins og spáin sýnir að við erum komin að þeim tímapunkti að við erum komin að þessum síðasta metra. Hann, samkvæmt spánni, verður ansi erfiður. Það er m.a. í því ljósi sem við erum að senda þessi skilaboð. Nú erum við komin að þeim tímapunkti að við viljum sjá einhverja markverða hjöðnun verðbólgunnar áður en við höldum áfram.“

Þórarinn G. Pétursson.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)