Verðbólga um áramótin stóð í 4,8% og hefur ekki verið minni frá því í október 2021 þegar hún stóð í 4,5%.

Meirihluti svarenda í könnun Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila á von á því að verðbólgan verði minni en 4% í lok árs 2025, en að meðaltali spá þátttakendur könnunarinnar 3,9% verðbólgu í lok árs og stendur miðgildið í 3-4% verðbólgu.

Könnunin var send á 276 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudag síðastliðinn og bárust 121 svör sem jafngildir 44% svarhlutfalli.

Tæplega þriðjungur svarenda spáir 4-5% verðbólgu í lok árs og 5,6% svarenda telja að verðbólgan verði á bilinu 5-6% og verði því meiri í lok þessa árs samanborið við lok árs 2024.

Stýrivextir standa nú í 8,5%. 64% þátttakenda telja að vextirnir verði á bilinu 6-7% í lok árs, en spá að meðaltali 6,3% stýrivöxtum í lok árs, og liggur miðgildi svaranna í 6-7%.

Fjórðungur svarenda telur að vextir muni lækka um að minnsta kosti 250 punkta á næsta ári og verði á bilinu 3-6%.

Þegar kemur að gengi krónunnar, mælt út frá gengisvísitölu Seðlabanka Íslands, eru nokkuð fjölbreytt svör meðal þátttakenda.

Tæplega fjórðungur þeirra telur að gengið muni styrkjast um 0-2,5%, og tæplega fimmtungur spáir því að það muni veikjast um 0-2,5%. Þá er tæplega fjórðungur svarenda sem spáir því að gengið veikist um 2,5-5% og rúmlega 13% sem telja að það veikist um 5%-10%. Rúmlega fimmtungur svarenda spáir því að gengi krónunnar muni styrkjast á bilinu 2,5-7,5% á árinu.

Meðalspá er 0,7% veiking krónunnar og miðgildið er á bilinu 0-2,5%.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.