Héraðsdómur Reykjaness sýknaði Íslandsbanka í gær af kröfum tveggja lántakenda sem kröfðust þess að skilmálar um breytilega vexti á veðskuldabréfi þeirra yrðu dæmdir ógildir.
Um er að ræða eitt fjölmörgum vaxtamálum sem Neytendasamtökin standa fyrir en þau hafa haldið því fram að skilmálar lána með breytilegum vöxtum standist ekki lög.
Neytendasamtökin söfnuðu í hópsmálsókn gegn Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum en mál hinna bankanna tveggja eru hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í gær að sýknudómurinn væri gríðarleg vonbrigði og að „réttlæti væri greinilega ekki íslensk framleiðsla.“
Breki hafði áður sagst búast við „stórtíðindum“ úr héraðsdómi en ráðgefandi álit EFTA dómstólsins sem var lagt fram í málinu gaf Neytendasamtökunum byr undir báða vængi.
Álitið sagði skilmála breytilegra vaxta ekki nægilega skýra í ljósi Evróputilskipunar um neytendavernd.
Dómurinn er þó skýr og afdráttarlaus en hann snýr í meginefni að lagaákvæði um breytilega vexti í lögum um fasteignalán og 36. gr. samningalaga, sem veitir heimild til að víkja samningi til hliðar sé hann bersýnilega ósanngjarn.
Almennt orðalag í skilmálum
Í málinu er deilt um skilmála um útreikning breytilegra vaxta í veðskuldabréfi sem Íslandsbanki gaf út í janúar 2021 til tveggja lántakendanna.
Kröfðust þau að skilmálarnir yrðu dæmdir ógildir og það yrði viðurkennt fyrir dómi að Íslandsbanka hafi verið óheimilt að hækka vaxtafót skuldar samkvæmt bréfinu í þrígang árið 2021.
Í skilmála veðskuldabréfsins sagði að breytingar á vöxtum tækju meðal annars mið af breytingum á „fjármögnunarkostnaði bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“
Ógildingarkrafan byggðist á því að þessi skilmáli brjóti gegn lögum um fasteignalán til neytenda og ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði.
Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins kom fram að það væri ósamrýmanlegt ákvæðum tilskipunarinnar ef skilmálar og upplýsingar sem neytanda væru veittar, væru ekki formlega og málfræðilega skiljanlegar eða gerðu honum ekki kleift að skilja aðferðina sem beitt væri við ákvörðun útlánsvaxta.
Hvað varðaði skilmála vaxtabreytingaákvæðis hins umdeilda skuldabréfs um „rekstrarkostnað“, „opinberar álögur“ og „annan ófyrirséðan kostnað“ tók EFTA-dómstóllinn fram að almennar vísanir til ófyrirséðrar mögulegrar hækkunar kostnaðar lánveitanda væru eðli málsins samkvæmt ósannreynanlegar fyrir hinn almenna neytanda.
Hið sama ætti við um orðalag eins og „vextir á markaði“ og „breytingar á fjármögnunarkostnaði bankans“ enda væri það, við fyrstu sýn, ekki gagnsætt jafnvel þótt það væri málfræðilega skýrt og skiljanlegt.
Héraðsdómur Reykjaness dró framangreinda niðurstöðu EFTA-dómstólsins ekki í efa og sagði túlkun hans á inntaki umrædds ákvæðis samrýmast markmiðum tilskipunarinnar um aukna neytendavernd í lánssamningum um fasteignir.
„Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að íslensku lögin eru frábrugðin ákvæði tilskipunarinnar að því leyti að bætt var við 1. mgr. 34. gr. laganna viðbótarmálslið sem fjallar um þá aðstöðu sérstaklega þegar vaxtabreyting byggir ekki á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum. Kveður seinni málsliður málsgreinarinnar á um að í slíkum tilvikum skuli einungis upplýsa um skilyrði og málsmeðferð ákvörðunar um breytilega vexti,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness.
Ákvæði 1. mgr. 34. gr. laganna gerir þannig ráð fyrir því með skýrum og afdráttarlausum hætti að aðilar að lánssamningi um fasteignir geti miðað við annað en fyrrgreinda þætti fyrri málsliðar ákvæðisins við ákvörðun um breytilega vexti.
„Sagði raunar í athugasemdum með frumvarpi til laganna að ákvæðið kæmi ekki í veg fyrir að lánveitendur gætu kveðið á um í samningi um fasteignalán að breyting á vöxtum væri ákveðin af lánveitanda með hliðsjón t.d. af fjármögnunarkostnaði eða rekstrarkostnaði. Væri vaxtabreyting byggð á slíkum viðmiðum bæri lánveitanda að taka það skýrlega fram og útskýra við hvaða aðstæður vextir kynnu að breytast.“
Héraðsdómur tekur fram að í lögum um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.
Líkt og Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað bent á tekur slík lögskýring til orða íslenskra laga svo framast sem merking rúmast innan þeirra. Hins vegar getur slík lögskýring ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðalagi íslenskra laga sem eru ósambærileg og til eru mörg dómafordæmi um slíkt.
Breki sagði í samtali við mbl.is í gær að Neytendasamtökin muni áfrýja málinu beint til Hæstaréttar en samkvæmt þeim dómafordæmum sem nefnd eru í málinu ætti afstaða Hæstaréttar að vera fremur skýr.
„Vextir bréfsins hefðu í öllum tilvikum verið hærri“
Ógildingarkrafa lántakenda tók einnig til laga um samningsgerð og hvort samningurinn væri bersýnilega ósanngjarn.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytanda í óhag.
„Stefnendur gátu valið úr fjölda lánategunda og voru upplýstir um lánaframboð stefnda og ólíkar áhættur milli lánategunda en völdu þrátt fyrir það skuldabréf þar sem stefndi áskildi sér víðtæka heimild til að breyta vöxtum með einhliða ákvörðun við nánar tilgreindar aðstæður. Að mati dómsins mátti stefnendum vera ljós sú áhætta sem þau tóku með því að undirgangast skyldu til greiðslu vaxta sem háðir voru einhliða ákvörðun stefnda á grunni óljósra viðmiða á borð við rekstrarkostnað bankans og verður ekki séð að við þá ákvörðun hafi jafnvægi samningsaðila verið raskað til muna,“ segir í Héraðsdómi.
Lántakendurnir mótmæltu því heldur ekki að hafa haft undir höndum lánaskjöl Íslandsbanka, þar sem veittar voru upplýsingar um þróun breytilegra vaxta, áhrif vaxtabreytinga á greiðslur af lánum, dæmi um breytingar á greiðslubyrði óverðtryggðra lána, mismunandi áhættur ólíkra lánategunda og upplýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunartekna.
Lántakendum var einnig heimilt að greiða upp lánið á hvaða tíma sem er.
„Um efni skuldbindingarinnar verður einnig að líta til þess að með skuldabréfinu fengu stefnendur lægri vexti en annars stóðu til boða en tóku á sig áhættu af einhliða vaxtabreytingum stefnda,“ segir í dómnum.
Héraðsdómur segir að af þeim sökum verður ekki séð að hagsmunum lántakendanna hafi verið raskað með fyrrnefndum skilmálum.
„Á sama tíma er ómótmælt af hálfu stefnenda að upphaflegir vextir bréfsins hefðu í öllum tilvikum verið hærri hefði skuldabréf með föstum vöxtum orðið fyrir valinu. Loks verður ekki fram hjá því litið, eins og bent er á af hálfu stefnda, að ekki verður annað séð en að breytingar á vöxtum hafi a.m.k. ekki vikið í verulegum atriðum frá breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands á sama tímabili. Það er meginregla samningaréttar að samninga beri að halda og einungis í undantekningartilvikum sem gildum samningi verður vikið til hliðar,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Af þeim sökum sýknaði Héraðsdómur Íslandsbanka og segir að skilmálarnir hefðu ekki skort skýrleika eða raskað til muna jafnvægi í samningssambandi þeirra á milli.