Héraðs­dómur Reykja­ness sýknaði Ís­lands­banka í gær af kröfum tveggja lántak­enda sem kröfðust þess að skilmálar um breyti­lega vexti á veðskulda­bréfi þeirra yrðu dæmdir ógildir.

Um er að ræða eitt fjölmörgum vaxta­málum sem Neyt­enda­samtökin standa fyrir en þau hafa haldið því fram að skilmálar lána með breyti­legum vöxtum standist ekki lög.

Neyt­enda­samtökin söfnuðu í hóps­málsókn gegn Arion banka, Ís­lands­banka og Lands­bankanum en mál hinna bankanna tveggja eru hjá Héraðs­dómi Reykja­víkur.

Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna, sagði í gær að sýknu­dómurinn væri gríðar­leg von­brigði og að „rétt­læti væri greini­lega ekki ís­lensk fram­leiðsla.“

Breki hafði áður sagst búast við „stórtíðindum“ úr héraðs­dómi en ráð­gefandi álit EFTA dómstólsins sem var lagt fram í málinu gaf Neyt­enda­samtökunum byr undir báða vængi.

Álitið sagði skilmála breyti­legra vaxta ekki nægi­lega skýra í ljósi Evrópu­til­skipunar um neyt­enda­vernd.

Dómurinn er þó skýr og af­dráttar­laus en hann snýr í megin­efni að lagaákvæði um breytilega vexti í lögum um fast­eigna­lán og 36. gr. samninga­laga, sem veitir heimild til að víkja samningi til hliðar sé hann bersýni­lega ósann­gjarn.

Almennt orðalag í skilmálum

Í málinu er deilt um skilmála um út­reikning breyti­legra vaxta í veðskulda­bréfi sem Ís­lands­banki gaf út í janúar 2021 til tveggja lántak­endanna.

Kröfðust þau að skilmálarnir yrðu dæmdir ógildir og það yrði viður­kennt fyrir dómi að Ís­lands­banka hafi verið óheimilt að hækka vaxtafót skuldar sam­kvæmt bréfinu í þrí­gang árið 2021.

Í skilmála veðskuldabréfsins sagði að breytingar á vöxtum tækju meðal annars mið af breytingum á „fjár­mögnunar­kostnaði bankans, rekstrar­kostnaði, opin­berum álögum og/eða öðrum ófyrir­séðum kostnaði, stýri­vöxtum Seðla­banka Ís­lands, breytingum á vísitölu neyslu­verðs o.s.frv.“

Ógildingar­krafan byggðist á því að þessi skilmáli brjóti gegn lögum um fast­eigna­lán til neyt­enda og ákvæðum til­skipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB um láns­samninga fyrir neyt­endur í tengslum við íbúðar­húsnæði.

Í ráð­gefandi áliti EFTA-dómstólsins kom fram að það væri ósamrýman­legt ákvæðum til­skipunarinnar ef skilmálar og upp­lýsingar sem neytanda væru veittar, væru ekki form­lega og mál­fræði­lega skiljan­legar eða gerðu honum ekki kleift að skilja að­ferðina sem beitt væri við ákvörðun útláns­vaxta.

Hvað varðaði skilmála vaxta­breytingaákvæðis hins um­deilda skulda­bréfs um „rekstrar­kostnað“, „opin­berar álögur“ og „annan ófyrir­séðan kostnað“ tók EFTA-dómstóllinn fram að al­mennar vísanir til ófyrir­séðrar mögu­legrar hækkunar kostnaðar lán­veitanda væru eðli málsins sam­kvæmt ósann­reynan­legar fyrir hinn al­menna neytanda.

Hið sama ætti við um orðalag eins og „vextir á markaði“ og „breytingar á fjár­mögnunar­kostnaði bankans“ enda væri það, við fyrstu sýn, ekki gagnsætt jafn­vel þótt það væri mál­fræði­lega skýrt og skiljan­legt.

Héraðs­dómur Reykja­ness dró framan­greinda niður­stöðu EFTA-dómstólsins ekki í efa og sagði túlkun hans á inn­taki um­rædds ákvæðis samrýmast mark­miðum til­skipunarinnar um aukna neyt­enda­vernd í láns­samningum um fast­eignir.

„Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að ís­lensku lögin eru frábrugðin ákvæði til­skipunarinnar að því leyti að bætt var við 1. mgr. 34. gr. laganna viðbótar­máls­lið sem fjallar um þá aðstöðu sér­stak­lega þegar vaxta­breyting byggir ekki á viðmiðunar­gengi, vísitölum eða viðmiðunar­vöxtum. Kveður seinni máls­liður máls­greinarinnar á um að í slíkum til­vikum skuli einungis upp­lýsa um skil­yrði og máls­með­ferð ákvörðunar um breyti­lega vexti,“ segir í dómi Héraðs­dóms Reykja­ness.

Ákvæði 1. mgr. 34. gr. laganna gerir þannig ráð fyrir því með skýrum og af­dráttar­lausum hætti að aðilar að láns­samningi um fast­eignir geti miðað við annað en fyrr­greinda þætti fyrri máls­liðar ákvæðisins við ákvörðun um breyti­lega vexti.

„Sagði raunar í at­huga­semdum með frum­varpi til laganna að ákvæðið kæmi ekki í veg fyrir að lán­veit­endur gætu kveðið á um í samningi um fast­eigna­lán að breyting á vöxtum væri ákveðin af lán­veitanda með hlið­sjón t.d. af fjár­mögnunar­kostnaði eða rekstrar­kostnaði. Væri vaxta­breyting byggð á slíkum viðmiðum bæri lán­veitanda að taka það skýr­lega fram og út­skýra við hvaða aðstæður vextir kynnu að breytast.“

Héraðs­dómur tekur fram að í lögum um Evrópska efna­hags­svæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Líkt og Hæstiréttur Ís­lands hefur ítrekað bent á tekur slík lögskýring til orða ís­lenskra laga svo framast sem merking rúmast innan þeirra. Hins vegar getur slík lögskýring ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orða­lagi ís­lenskra laga sem eru ósam­bæri­leg og til eru mörg dóma­fordæmi um slíkt.

Breki sagði í samtali við mbl.is í gær að Neytendasamtökin muni áfrýja málinu beint til Hæstaréttar en sam­kvæmt þeim dómafordæmum­­ sem nefnd eru í málinu ætti af­staða Hæstaréttar að vera fremur skýr.

„Vextir bréfsins hefðu í öllum til­vikum verið hærri

Ógildingar­krafa lántak­enda tók einnig til laga um samnings­gerð og hvort samningurinn væri bersýni­lega ósann­gjarn.

Samningur telst ósann­gjarn stríði hann gegn góðum við­skipta­háttum og raski til muna jafn­vægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytanda í óhag.

„Stefn­endur gátu valið úr fjölda lána­tegunda og voru upp­lýstir um lána­fram­boð stefnda og ólíkar áhættur milli lána­tegunda en völdu þrátt fyrir það skulda­bréf þar sem stefndi áskildi sér víðtæka heimild til að breyta vöxtum með ein­hliða ákvörðun við nánar til­greindar aðstæður. Að mati dómsins mátti stefn­endum vera ljós sú áhætta sem þau tóku með því að undir­gangast skyldu til greiðslu vaxta sem háðir voru ein­hliða ákvörðun stefnda á grunni óljósra viðmiða á borð við rekstrar­kostnað bankans og verður ekki séð að við þá ákvörðun hafi jafn­vægi samningsaðila verið raskað til muna,“ segir í Héraðs­dómi.

Lántak­endurnir mót­mæltu því heldur ekki að hafa haft undir höndum lána­skjöl Ís­lands­banka, þar sem veittar voru upp­lýsingar um þróun breyti­legra vaxta, áhrif vaxta­breytinga á greiðslur af lánum, dæmi um breytingar á greiðslu­byrði óverð­tryggðra lána, mis­munandi áhættur ólíkra lána­tegunda og upp­lýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunar­tekna.

Lántak­endum var einnig heimilt að greiða upp lánið á hvaða tíma sem er.

„Um efni skuld­bindingarinnar verður einnig að líta til þess að með skulda­bréfinu fengu stefn­endur lægri vexti en annars stóðu til boða en tóku á sig áhættu af ein­hliða vaxta­breytingum stefnda,“ segir í dómnum.

Héraðs­dómur segir að af þeim sökum verður ekki séð að hags­munum lántak­endanna hafi verið raskað með fyrr­nefndum skilmálum.

„Á sama tíma er ómót­mælt af hálfu stefn­enda að upp­haf­legir vextir bréfsins hefðu í öllum til­vikum verið hærri hefði skulda­bréf með föstum vöxtum orðið fyrir valinu. Loks verður ekki fram hjá því litið, eins og bent er á af hálfu stefnda, að ekki verður annað séð en að breytingar á vöxtum hafi a.m.k. ekki vikið í veru­legum at­riðum frá breytingum á stýri­vöxtum Seðla­banka Ís­lands á sama tíma­bili. Það er megin­regla samningaréttar að samninga beri að halda og einungis í undan­tekningar­til­vikum sem gildum samningi verður vikið til hliðar,“ segir í niður­stöðu dómsins.

Af þeim sökum sýknaði Héraðs­dómur Ís­lands­banka og segir að skilmálarnir hefðu ekki skort skýr­leika eða raskað til muna jafn­vægi í samnings­sam­bandi þeirra á milli.