Allt stefnir í að Vinstri græn og Píratar falli út af þingi eftir þingkosningarnar í gær og að fjöldi flokka á Alþingi fækki úr átta í sex milli kjörtímabila. Lokatölur liggja fyrir í báðum Reykjavíkurkjördæmum og Suðurkjördæmi.

Beðið er eftir að talningu ljúki í Suðvesturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Eftir að hafa setið í ríkisstjórn síðustu tvö kjörtímabilin, eða frá árinu 2017, er VG nú að fá útreið. Flokkurinn er með 2,3% talinna atkvæða þegar fréttin er skrifuð og virðist því hvorki ætla að ná manni inn á þing eða ná hinu 2,5% lágmarki atkvæða til að eiga rétt á framlagi frá ríkissjóði. VG hefur setið samfellt á Alþingi frá stofnárinu 1999.

Píratar hafa setið á Alþingi samfellt frá árinu 2013 en eru aðeins með 3,0% talinna atkvæða þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar fékk flokkurinn 8,6% í síðustu þingkosningum árið 2021 og var því með sex þingmenn á síðasta kjörtímabili.

Þá er Sósíalistaflokkurinn með 3,7% talinna atkvæða og því útlit fyrir að hann nái ekki heldur inn á þing.

Samfylkingin stærst

Samfylkingin er stærst eins og er með 21,4% talinna atkvæða á öllu landinu og tvöfaldar því fylgi sitt frá síðustu kosningum. Miðað við það fær flokkurinn 15 þingmenn, en til samanburðar voru þingmenn flokksins sex á síðasta kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn fylgir þar á eftir með 19,5% atkvæða og því stefnir í að þetta verði minnsta fylgi í þingkosningum í sögu flokksins. Versta kosning Sjálfstæðisflokksins fram að þessum var árið 2009 þegar hann fékk 23,7% atkvæða. Eins og staðan er núna fær flokkurinn 14 þingmenn og missir tvö frá fyrra kjörtímabili.

Viðreisn er með 16,0% talinna atkvæða og virðist ætla að ná 11 þingmönnum inn. Allt stefnir í að þetta verði bestu þingkosningar í sögu flokksins sem var stofnaður árið 2016.

Flokkur fólksins er einnig að tryggja sér sínar bestu þingkosningar frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2016. Hann er með 13,9% talinna atkvæða og fær tíu þingmenn að óbreyttu, en til samanburðar fékk hann 8,9% í kosningunum árið 2021.

Miðflokkurinn er með 11,5% talinna atkvæða og fær inn átta þingmenn miðað við stöðuna núna. Til samanburðar fékk flokkurinn, sem var stofnaður árið 2017, 5,5% atkvæða í síðustu kosningum árið 2021 og 10,9% fylgi í kosningunum árið 2017.

Framsókn að tapa átta þingsætum

Framsóknarflokkurinn er með 7,7% talinna atkvæða og fær 5 þingmenn eins og staðan er núna. Til samanburðar fékk 17,3% atkvæða í síðustu kosningum og var með 13 þingsæti á síðasta kjörtímabili.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er fallinn af þingi samkvæmt nýjustu tölum.