Nærfatakeðjan Victoria‘s Secret hefur tilkynnt að Hillary Super, forstjóri Savage X Fenty, muni taka við af Martin Waters sem næsti forstjóri fyrirtækisins. Waters hefur gegnt stöðunni undanfarin þrjú ár og mun Hillary taka við þann 9. september nk.
Nýi forstjórinn stýrði áður fyrr fataversluninni Anthropologie áður en hún færði sig yfir til Savage X Fenty á síðasta ári þegar þáverandi forstjóri, söngkonan Rihanna, lét af störfum.
Donna James, stjórnarformaður Victoria‘s Secret, segir að Hillary muni koma til með að leiða fyrirtækið inn í nýjan kafla en nærfatakeðjan hefur undanfarin ár reynt að auka sölu í Norður-Ameríku með stærri nærfatastærðum og fjölbreyttum gerðum.
„Við teljum að nú sé rétti tíminn til að stíga næstu skref á vegferð okkar með nýrri forystu og nýta að fullu þau tækifæri sem fram undan eru fyrir Victoria‘s Secret,“ segir James.
Fyrirtækið hækkaði nýlega horfur sínar fyrir annan ársfjórðung og segist búast við að sala minnki um aðeins 1-2%, samanborið við fyrri spá um 1-3% lækkun.