Knattspyrnuverslunin Boltamaðurinn opnaði nýlega í Fellsmúla 24 en verslunin sérhæfir sig í öllum fótboltatengdum vörum ásamt gjafavörum og aukahlutum. Verslunin hefur þegar fengið góðar móttökur og segist eigandi vilja leggja áherslu á góða þjónustu.
Boltamaðurinn er í eigu Viðars Valssonar, Sigurðar Garðarssonar og Hafsteins Ómars Gestssonar.
Viðar Valsson, meðeigandi verslunarinnar, er reynslumikill knattspyrnumaður en hann hefur tengst þeirri íþrótt alla ævi. Hann hefur einnig unnið með knattspyrnuvörur í tæp þrjátíu ár.
„Ég byrjaði í Austurbakka, sem flutti inn Nike-vörurnar á sínum tíma, árið 1996 og var svo hjá Jóa Útherja í rúm 20 ár. Nokkuð eftir að ég hætti þar keyptum við heildverslun og í framhaldi af því kom upp þessi hugmynd um að opna verslun.“
Hann segir meginmarkmið verslunarinnar vera að bjóða upp á góða þjónustu og þekkingu. Boltamaðurinn selur til að mynda fjölda treyja ásamt landsliðstreyjum, treyjum úr evrópskum deildum og einnig eldri treyjur í retró-stíl.
„Þessar retro-treyjur hafa verið mikið í tísku undanfarið ár en svona tískubylgjur koma og fara. Nú er sumartíminn kominn og Evrópuboltinn liggur niðri en nýju treyjurnar fyrir næsta tímabil munu svo detta inn í allt sumar.“
Viðar segir að nýjustu treyjur Arsenal, Manchester City og AC Milan séu þegar komnar í verslun. Manchester United-treyjurnar munu síðan mæta í vikunni og verða þá nýjustu Liverpool-treyjurnar komnar í byrjun ágúst og bætir hann við að hægt sé að láta merkja allar treyjurnar.
„Við erum líka með alla aukahluti í boltann, æfingatreyjur, hanska, fótboltaskó og fleira. Vöruúrvalið mun svo aukast á næstunni en við erum bara rétt að byrja,“ segir Viðar.