Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka, segist vonsvikinn yfir ákvörðun stjórnar Íslandsbanka að taka ekki þátt í samrunaviðræðum milli bankanna tveggja.

Í pistli á Linkedin segir Ólafur að Arion hafi litið á samrunann sem einstakt tækifæri til að gera fjármálakerfið skilvirkara og betra í að styðja við sína viðskiptavini.

„Fyrir Ísland, og í víðara samhengi norðurslóða, er nauðsynlegt að innlendur fjármálamarkaður hafi bolmagn til að styðja við vöxt og velmegun til framtíðar. Hann gerir það auðvitað í dag en gæti að okkar mati gert það enn betur. Þetta var kannski djörf hugsjón og við vissum að verkefnið yrði ekki einfalt. Það er nú samt oftast þannig að það þarf að hafa fyrir öllu sem skiptir raunverulega máli í lífinu,“ skrifar Ólafur.

„Það skiptir máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að við getum lánað þeim fjármagn svo þau geti unnið að sínum verkefnum. Við erum líka mikilvægur innviður í samfélaginu því greiðslumiðlun þarf að ganga hnökralaust fyrir sig alla daga ársins svo að samfélagið virki. Þannig eigum við okkar þátt í því að íslenskt samfélag hreyfist og dafni og það finnst mér vera hinn raunverulegi tilgangur okkar sem störfum í banka. Og það er gefandi,“ skrifar Ólafur.

Hann bætir þó við að það sé einnig mikilvægt að horfa á stóru myndina.

„Ég er þeirrar skoðunar að öllum sé nauðsynlegt að hafa tilgang sem er stærri en við sjálf og stærri en dagleg verkefni okkar í vinnunni, þó að þau séu auðvitað mikilvæg,“ skrifar Ólafur.

„Við hjá Arion höfum alltaf verið meðvituð um þetta hlutverk okkar og mikilvægi þess að hreyfa við hlutum. Við bíðum ekki eftir því að aðstæður breytist heldur tökum af skarið. Við erum kannski lítill banki (og lítil þjóð) en við hugsum stórt því við vitum að það er eina leiðin til að hreyfa við hlutum og ná langvarandi árangri.“

Ólafur segir jafnframt að Arion banki sé vonsvikinn með viðbrögð Íslandsbanka en að bankinn virði þó svar Íslandsbanka.

„Við munum hins vegar ekki hætta að hugsa stórt og sýna frumkvæði í málum sem við teljum mikilvæg. Ég get jafnframt sagt að síðustu vikur hafa verið meðal þeirra ánægjulegustu á mínum starfsferli. Á hverjum degi vorum við að ræða framtíðarsýn fyrir Ísland við fólk sem deilir ástríðu okkar, þó að vissulega hafi ekki allir verið sammála vegferðinni. Að ræða hvernig við getum byggt saman upp öflugt fjármálakerfi sem styður við framtíðarvelsæld hefur verið mjög skemmtilegt. Og þó að einum dyrum hafi nú verið lokað munu aðrar opnast í framtíðinni og sú vinna sem við höfum lagt á okkur kemur að góðum notum í öðrum verkefnum,“ skrifar Ólafur.

Hann segir að lokum að Arion banki muni áfram sinna hlutverki sínu af kostgæfni og styðja við viðskiptavini bankans.

„Arion banki stendur styrkum fótum eins og íslenska hagkerfið og tækifærin fram undan eru fjölmörg og spennandi,“ skrifar Ólafur að lokum.