Louis Goldish, Senior Venture Advisor hjá MIT Venture Mentoring Services verður gestur KLAK VMS á miðvikudaginn í Grósku þar sem hann verður með námskeið fyrir verðandi mentora hjá KLAK.

Hann hefur starfað sem sem mentor hjá MIT í yfir 20 ár og hefur í gegnum starf sitt fengið margt fólk úr bandarísku atvinnulífi til að gerast mentorar hjá MIT, en MIT VMS hefur síðastliðin 30 ár byggt upp mentorakerfi til stuðnings frumkvöðlum innan MIT háskólasamfélagsins í Boston og sett það upp á 124 stöðum í 28 löndum, þar á meðal hjá KLAK fyrr á þessu ári.

KLAK segir að nýjungin hjá MIT felist í að setja saman teymi af mentorum, 2-5 saman, til að fylgja sprotum eftir með reglulegum mentorafundum.

MIT hélt fyrsta námskeiðið fyrir íslenska mentora í febrúar á þessu ári. Nú eru alls 70 mentorar í VMS hópnum hjá KLAK en áætlað er að eftir námskeiðið á miðvikudaginn muni 60 nýir bætast við í hópinn.

Um 70-90 sprotafyrirtæki nýta sér mentoraþjónustuna á hverju ári í gegnum viðskiptahraðla eins og Startup SuperNova og Hringiðu og þar að auki Dafna, samstarfverkefni KLAK og Tækniþróunarsjóðs.

Louis hefur starfað sem sem mentor hjá MIT í yfir 20 ár.
© Sunna Halla Einarsdóttir (KLAK)

Magnús Ingi Óskarsson, forstöðumaður KLAK VMS, segir núverandi þróun vera einu mestu framför í íslenska sprotaheiminum síðan að endurgreiðslu þróunarkostnaðar kom til.

„Þegar ég byrjaði að mentora fyrir 10 árum þá var þetta nokkurs konar „speed-dating“ þar sem maður talaði við einhvern í 20-30 mínútur og svo fór hann og talaði við næsta. Svo bárum við mentorarnir saman bækurnar og komumst að því að við vorum allir að segja það sama við sprotann.“

Magnús segir að þetta gamla fyrirkomulag hafi í raun ekki verið að skila virði. Fyrir 2 árum komst KLAK í kynni við MIT-háskólann og mentoraþjónustuna þar. Fljótlega var farið í að gera samning við MIT og fyrir einu og hálfu ári síðan fór starfsfólk KLAK til Boston til að læra að innleiða nýja mentorakerfi.

„Okkur leið þá eins og við værum búinn að skríða upp á fyrstu hæð og þarna blasti við okkur lyfta upp á sjöundu hæð. Við vorum búin að prófa ýmislegt en þarna fengum við bara svörin við öllum okkar spurningum. Það þurfti ekkert að finna upp hjólið og við getum nú komið sprotunum ævintýralega hratt áfram miðað við það sem annars væri,“ segir Magnús.