Hotel Holding, sem rekur um 18 hótel í Dan­mörku og víðar undir vöru­merkinu Z­leep Hot­els, er í tölu­verðum vand­ræðum eftir öran vöxt síðustu ár.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen verður fé­lagið ó­gjald­fært ef ekki kemur inn­spýting af nýju fjár­magni inn í það.

Peter Haaber, stofnandi og for­stjóri hótel­keðjunnar, vill ekki ganga svo langt að segja að fé­lagið sé í krísu en viður­kennir þó að fé­lagið hafi verið í tölu­verðum vand­ræðum síðustu ár.

Sam­kvæmt árs­reikningi fyrir árið 2023 tapaði keðjan 52 milljónum danskra króna sem sam­svarar um einum milljarði ís­lenskra króna á gengi dagsins. Skamm­tíma­skuldir sam­stæðunnar eru nú orðnar meiri en eignir þess.

Haaber segir að unnið sé að endur­skipu­lagningu en fé­lagið þarf um 40 til 50 milljónir danskra króna frá utan­að­komandi fjár­festum til að halda sér á floti. Hann segist vera kominn með vil­yrði frá fjár­festum til þess að leggja fé­laginu til fé en vildi þó ekki gefa upp um hvaða fjár­festar væru að leggja fé­laginu til meira fé.

„Við þurfum að berjast fyrir því að halda fé­laginu á floti en við erum á þannig stað að við ættum að lifa af næstu ár,“ segir Haaber.

„Á­stæðan fyrir því að við erum í þessari stöðu er vegna þess að við höfum ekki gert neitt annað en að opna hótel á versta mögu­lega tímanum. Um þriðjungur af hótelunum sem við rekum í dag opnuðu á síðustu þremur árum,“ segir Haaber.

Haaber stofnaði sam­stæðuna árið 2003 með því að taka út lán með veði í heimili sínu.

Hótel­keðjan skilaði um 71,4 milljóna danskra króna hagnaði árið 2019 og var eigið fé sam­stæðunnar um 89 milljónir danskra króna.

Í kjöl­farið seldi Haaber um 51% hlut í hótel­keðjunni til Deutsche Hospitaly fyrir hundruð milljóna danskra króna. CO­VID-far­aldurinn lék hins vegar sam­stæðuna grátt og tapaði fé­lagið 28 milljónum danskra króna árið 2020. Fé­lagið hefur ekki náð sér á strik síðan þá.

Sam­kvæmt Haaber getur fé­lagið ekki byrjað að draga saman seglin og fækkað hótelum vegna lang­tíma­samninga sem gerðir hafa verið.

Spurður um hvort hann óttist að keðjan sé á leiðinni í gjald­þrot, svarar hann því neitandi.

„Þú getur sagt ég sé barna­legur en nei ég óttast það ekki. Við höfum fullt af tæki­færum í hendi,“ segir Haaber í sam­tali við Børsen.