Hotel Holding, sem rekur um 18 hótel í Danmörku og víðar undir vörumerkinu Zleep Hotels, er í töluverðum vandræðum eftir öran vöxt síðustu ár.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen verður félagið ógjaldfært ef ekki kemur innspýting af nýju fjármagni inn í það.
Peter Haaber, stofnandi og forstjóri hótelkeðjunnar, vill ekki ganga svo langt að segja að félagið sé í krísu en viðurkennir þó að félagið hafi verið í töluverðum vandræðum síðustu ár.
Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2023 tapaði keðjan 52 milljónum danskra króna sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna á gengi dagsins. Skammtímaskuldir samstæðunnar eru nú orðnar meiri en eignir þess.
Haaber segir að unnið sé að endurskipulagningu en félagið þarf um 40 til 50 milljónir danskra króna frá utanaðkomandi fjárfestum til að halda sér á floti. Hann segist vera kominn með vilyrði frá fjárfestum til þess að leggja félaginu til fé en vildi þó ekki gefa upp um hvaða fjárfestar væru að leggja félaginu til meira fé.
„Við þurfum að berjast fyrir því að halda félaginu á floti en við erum á þannig stað að við ættum að lifa af næstu ár,“ segir Haaber.
„Ástæðan fyrir því að við erum í þessari stöðu er vegna þess að við höfum ekki gert neitt annað en að opna hótel á versta mögulega tímanum. Um þriðjungur af hótelunum sem við rekum í dag opnuðu á síðustu þremur árum,“ segir Haaber.
Haaber stofnaði samstæðuna árið 2003 með því að taka út lán með veði í heimili sínu.
Hótelkeðjan skilaði um 71,4 milljóna danskra króna hagnaði árið 2019 og var eigið fé samstæðunnar um 89 milljónir danskra króna.
Í kjölfarið seldi Haaber um 51% hlut í hótelkeðjunni til Deutsche Hospitaly fyrir hundruð milljóna danskra króna. COVID-faraldurinn lék hins vegar samstæðuna grátt og tapaði félagið 28 milljónum danskra króna árið 2020. Félagið hefur ekki náð sér á strik síðan þá.
Samkvæmt Haaber getur félagið ekki byrjað að draga saman seglin og fækkað hótelum vegna langtímasamninga sem gerðir hafa verið.
Spurður um hvort hann óttist að keðjan sé á leiðinni í gjaldþrot, svarar hann því neitandi.
„Þú getur sagt ég sé barnalegur en nei ég óttast það ekki. Við höfum fullt af tækifærum í hendi,“ segir Haaber í samtali við Børsen.