Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingarfélags, lýsir því í ársskýrslu félagsins að markmið þess sé að í eignasafni félagsins séu á hverjum tíma sjö grunnfjárfestingar. Fjárfestingarfélagið hyggst nýta sér sterkan efnahag til að styðja við þróun og vöxt þessara sjö grunnfjárfestinga.
„Verkefnið er í sjálfu sér einfalt: Við kaupum, bætum og seljum eða kaupum, bætum og höldum,“ segir Jón Ásgeir.
„Buffet sagði einhverju sinni ekki kaupa hlutabréf sem þú ert ekki til í að eiga í 10 ár. Margt er til í þeirri speki og rétt að hafa hana í huga.“
Hvað fjölda grunnfjárfestinga varðar, þá má má rifja upp að Jón Ásgeir hefur sagt frá því að hafa fengið ráðgjöf frá vini um að best væri að eiga að hámarki sjö félög.
„En ef þú selur eitt þá kaupirðu alltaf eitt stærra. Þú ferð samt aldrei yfir þessa heilögu tölu sjö. Mér fannst það ágætis input,“ sagði Jón Ásgeir í hlaðvarpsþætti haustið 2022.
Til samanburðar hafi fjöldi fyrirtækja í eigu Baugs á einum tímapunkti verið kominn upp í áttatíu.
Auka þarf fjölda einstaklinga á hlutabréfamarkaði
Í ávarpi sínu á aðalfundi Skeljar fyrir ári sagði Jón Ásgeir að það ætti eftir að koma í ljós hvort sú tilraun að hafa fjárfestingarfélag skráð á Íslandi eigi rétt á sér. Ári síðar segir hann að trú stjórnar á því að skráning henti félaginu vel sé smám saman að aukast, m.a. vegna aukins fjölda hluthafa.
„Staðreyndin er sú að það þarf að auka fjölda einstaklinga á hlutabréfamarkaði. Bankarnir þurfa að einfalda kaup og sölu hlutabréfa en sú aðgerð þarf ekki að vera flókin,“ segir Jón Ásgeir.
„Stjórnvöld þurfa einnig að horfa til skattalegrar meðferðar og gera hana einfaldari en er í dag. Kannski verða hlutabréf seld í Heimkaup einn daginn – hver veit!“
Ekkert orkuleysi einkennt rekstur Skeljar
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gærkvöldi gerði Jón Ásgeir orkumál að umræðuefni í ávarpi sínu. Hann sagði orku- og aðgerðarleysi stjórnvalda hafa háð samfélaginu í orkumálum. Jón Ásgeir telur hins vegar að rekstur Skeljar fjárfestingarfélags síðastliðið ár hafi ekki einkennst af orkuleysi.
Frá þvi að fjárfestingarfélagið Strengur kom inn í hluthafahópinn árið 2020 hafi rekstur Skeljar, sem hét þá Skeljungur, verið einfaldaður ásamt því að ráðist var í fjárfestingar. Eigið fé Skeljar hafi aukist úr 9 milljörðum í tæpa 38 milljarða á þessu tímabili.
„Á vegferðinni hefur verið horft til þess sem hefur verið kallað „buy and build“ en á sama tíma hafa augu stjórnar og starfsmanna verið á skráðum eignum Skeljar þar sem forstjóri félagsins hefur setið í stjórnum bæði Kaldalóns og VÍS,“ segir Jón Ásgeir.
Þá hafi fjárfestingarfélagið unnið að því að gera eignir seljanlegri. Gott dæmi um það séu kaup á 55 íbúðum í 5 milljarða viðskiptum þar sem hluti kaupverðs var greiddur með eignarhlut í fasteignaþróunarfélaginu Reir Þróun.
Á liðnu ári markaði stjórn Skeljar þá stefnu að fjárfestingar félagsins skyldu í auknum mæli vera færðar erlendis, þannig að um 30% af eignum félagsins verði utan Íslands eftir tvö ár. Jón Ásgeir segir að ekki sé um neina grundvallarbreytingu að ræða þegar haft er í huga að árið 2018 kom um 40% af hagnaði félagsins frá starfsemi Magn í Færeyjum.
Skel og Kaupfélag Suðurnesja geti unnið vel saman
Einbeiting stjórnar og starfsmanna Skeljar á næsta ári mun að stórum hluta beinast að því að sinna fjárfestingum sem þegar eru á borðinu að sögn Jóns Ásgeirs.
Þannig verði t.d. unnið áfram að undirbúningi skráningu Styrkáss á aðalmarkað. Styrkás, sem Skel á 69,4% hlut í, er móðurfélag Skeljungs og Kletts auk þess sem félagið undirritaði á dögunum kaupsamning vegna kaupa á samstæðu Stólpa Gáma.
Þá sé fyrirséð að mikið púður verði sett í vinnu við skráningu hins sameinaða félags Heimkaupa, Orkunnar og Samkaupa verði af þeim samruna. Skel og Samkaup undirrituðu um miðjan janúar síðastliðinn viljayfirlýsingu um að hefja könnunarviðræður vegna mögulegs samruna félaganna þriggja.
„Gríðarlegt tækifæri liggur í því að búa til öflugt félag á smásölumarkaði með sterka kjölfestu fjárfesta, þ.e. Skel annars vegar og Kaupfélag Suðurnesja hins vegar. Margir gætu sagt að þar sitji ólíkir aðilar við borðið en ég trúi því að þekking beggja muni nýtast nýju félagi vel á vegferð sinni gangi sameining eftir.“