Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, sendi tölvupóst á alla starfsmenn bankans vegna ákvörðunar stjórnar Kviku banka um að hafna beiðni stjórnar Íslandsbanka um samrunaviðræður. Um leið féllst stjórn Kviku á beiðni stjórnar Arion banka um samrunaviðræður.
„Við teygðum okkur eins langt í verði og við töldum hyggilegt útfrá hagsmunum hluthafa bankans,“ segir í tölvupósti Jóns Guðna, sem mbl.is segir frá. Þá bætir hann við að mat bankans hafi byggt á bjartsýnum forsendum um vöxt og samlegðaráhrif.
Jafnframt segir Jón Guðni að bankinn hafi lagt mikla vinnu í að greina þetta tækifæri, en niðurstaðan sé vissulega vonbrigði. Þrátt fyrir það kveðst hann sannfærður um að önnur spennandi tækifæri bíði Íslandsbanka, bæði á sviði innri og ytri vaxtar, hérlendis sem erlendis.