Eldur Ólafs­son, for­stjóri málm­leitarfélagsins Amaroq Minerals, segir í árs­hluta­upp­gjöri að fyrir­tækið hafi náð veru­legum fram­förum í upp­byggingu í Nalunaq á þriðja árs­fjórðungi.

„Við erum nú við það að hefja vinnslu á gulli úr Nalunaq, sem er afar stór áfangi fyrir félagið og mun skila tekju­flæði sam­hliða því sem við vinnum okkur upp í fulla fram­leiðslu,“ segir Eldur.

Í lok þriðja árs­fjórðungs var félagið með 26 milljónir kanda­dali, um 2,6 milljarða íslenskra króna, á hendi sem saman­stendur af hand­bæru fé, ónotuðum lána­línum og lausafé eftir að hafa dregið frá við­skipta­skuldir. Staðan í lok júní nam 62,2 milljónum kanda­dölum.

Í júlí 2024 gerði fyrir­tækið sam­komu­lag við Lands­bankann um þrjár lána­heimildir að and­virði 35 milljónir kanda­dali. Sam­kvæmt upp­gjörinu tryggja lána­línurnar veru­lega aukningu og fram­lengingu á núverandi lána­línum.

„Við settum upp og tengdum flest af þeim mikilvægu tækjum og íhlutum sem þarf til að hefja fram­leiðslu í vinnslu­stöðinni. Við höfum einnig haldið áfram þróun námunnar innan Mountain Block og safnað saman bergi fyrir fyrstu gull­fram­leiðslu, sem hefst á þessum árs­fjórðungi. Rannsóknir og boranir í fjórðungnum hafa aukið skilning okkar enn frekar á gullæðinni með borunum á Target Block svæðinu og í gegnum 75-æðina. Við væntum þess að niður­stöður þessara rannsókna, sem og úr Mountain Block, liggi fyrir fljót­lega. Við teljum að þessar niður­stöður, til viðbótar við niður­stöður úr rannsóknar­borunum síðustu tveggja ára, muni leiða til upp­færðs auðlinda­mats (MRE4) fyrir Nalunaq snemma á næsta ári,” segir Eldur í upp­gjörinu.

Jarð- og mann­virkja­vinnu á byggingar­stað verk­smiðjunnar á Nalunaq er lokið, sam­kvæmt upp­gjörinu. Búið er að klára stál­virki verk­smiðju­hússins og er klæðningu 98% lokið.

Þykka­vinnslutankur, vél­búnaður og lagna­vinna er lokið og raf­lögn er í vinnslu.

Veltu­fé af gull­starf­semi, fyrir út­gáfu breytan­legra skulda­bréfa, nam 37,9 milljónum kanda­dískra dollara en inni í því eru fyrir­fram­greiðslur til verk­taka vegna Nalunaq-verk­efnisins upp á 17,9 milljónir kana­dískra dollara í lok septem­ber.

Gardaq-sam­vinnu­félagið, sem inni­heldur við­skipti með mikilvæga málma, hefur lausafé upp á 8,3 milljónir kanda­dali þann 30. septem­ber 2024, sem er lækkun úr 13,5 milljónum í lok júní.

„Félagið stundaði viða­miklar rannsóknir á þriðja árs­fjórðungi og er ég afar stoltur af því sem rannsóknar­teymi okkar hefur áorkað á þessu ári. Auk Nalunaq boruðum við fyrstu tvær holurnar í Nanoq-gull­leyfinu sem og Target North í Sava, starfræktum þrjá bor­palla í Stenda­len og tókst einnig að bora tvær til­rauna­holur í hinni sögu­frægu Jos­va-koparnámu. Við reiknum með niður­stöðum úr öllum þessum verk­efnum á næstu mánuðum. Þessi vinna hefur lagt traustan grunn að frekari rannsóknum á gulli, kopar og nikkel á næsta ári og stuðlar að því að við raun­gerum verðmæti eigna­safns okkar á Græn­landi,“ segir Eldur.

Amaroq gerði í byrjun október samkomulag við eigendur breytanlegra skuldabréfa um að breyta þeim í hlutabréf, sem einfalda eignarstrúktúr fyrirtækisins, draga úr vaxtakostnaði og auka fjárhagslegt svigrúm.