Eldur Ólafsson, forstjóri málmleitarfélagsins Amaroq Minerals, segir í árshlutauppgjöri að fyrirtækið hafi náð verulegum framförum í uppbyggingu í Nalunaq á þriðja ársfjórðungi.
„Við erum nú við það að hefja vinnslu á gulli úr Nalunaq, sem er afar stór áfangi fyrir félagið og mun skila tekjuflæði samhliða því sem við vinnum okkur upp í fulla framleiðslu,“ segir Eldur.
Í lok þriðja ársfjórðungs var félagið með 26 milljónir kandadali, um 2,6 milljarða íslenskra króna, á hendi sem samanstendur af handbæru fé, ónotuðum lánalínum og lausafé eftir að hafa dregið frá viðskiptaskuldir. Staðan í lok júní nam 62,2 milljónum kandadölum.
Í júlí 2024 gerði fyrirtækið samkomulag við Landsbankann um þrjár lánaheimildir að andvirði 35 milljónir kandadali. Samkvæmt uppgjörinu tryggja lánalínurnar verulega aukningu og framlengingu á núverandi lánalínum.
„Við settum upp og tengdum flest af þeim mikilvægu tækjum og íhlutum sem þarf til að hefja framleiðslu í vinnslustöðinni. Við höfum einnig haldið áfram þróun námunnar innan Mountain Block og safnað saman bergi fyrir fyrstu gullframleiðslu, sem hefst á þessum ársfjórðungi. Rannsóknir og boranir í fjórðungnum hafa aukið skilning okkar enn frekar á gullæðinni með borunum á Target Block svæðinu og í gegnum 75-æðina. Við væntum þess að niðurstöður þessara rannsókna, sem og úr Mountain Block, liggi fyrir fljótlega. Við teljum að þessar niðurstöður, til viðbótar við niðurstöður úr rannsóknarborunum síðustu tveggja ára, muni leiða til uppfærðs auðlindamats (MRE4) fyrir Nalunaq snemma á næsta ári,” segir Eldur í uppgjörinu.
Jarð- og mannvirkjavinnu á byggingarstað verksmiðjunnar á Nalunaq er lokið, samkvæmt uppgjörinu. Búið er að klára stálvirki verksmiðjuhússins og er klæðningu 98% lokið.
Þykkavinnslutankur, vélbúnaður og lagnavinna er lokið og raflögn er í vinnslu.
Veltufé af gullstarfsemi, fyrir útgáfu breytanlegra skuldabréfa, nam 37,9 milljónum kandadískra dollara en inni í því eru fyrirframgreiðslur til verktaka vegna Nalunaq-verkefnisins upp á 17,9 milljónir kanadískra dollara í lok september.
Gardaq-samvinnufélagið, sem inniheldur viðskipti með mikilvæga málma, hefur lausafé upp á 8,3 milljónir kandadali þann 30. september 2024, sem er lækkun úr 13,5 milljónum í lok júní.
„Félagið stundaði viðamiklar rannsóknir á þriðja ársfjórðungi og er ég afar stoltur af því sem rannsóknarteymi okkar hefur áorkað á þessu ári. Auk Nalunaq boruðum við fyrstu tvær holurnar í Nanoq-gullleyfinu sem og Target North í Sava, starfræktum þrjá borpalla í Stendalen og tókst einnig að bora tvær tilraunaholur í hinni sögufrægu Josva-koparnámu. Við reiknum með niðurstöðum úr öllum þessum verkefnum á næstu mánuðum. Þessi vinna hefur lagt traustan grunn að frekari rannsóknum á gulli, kopar og nikkel á næsta ári og stuðlar að því að við raungerum verðmæti eignasafns okkar á Grænlandi,“ segir Eldur.
Amaroq gerði í byrjun október samkomulag við eigendur breytanlegra skuldabréfa um að breyta þeim í hlutabréf, sem einfalda eignarstrúktúr fyrirtækisins, draga úr vaxtakostnaði og auka fjárhagslegt svigrúm.