Landsvirkjun mun að óbreyttu sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun en Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að ógilda virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar.

Í yfirlýsingu frá Landsvirkjun segir að virkjunarleyfi til bráðabirgða gildi í eitt ár en ákvæði um slík leyfi er að finna í nýsamþykktu lagafrumvarpi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Á þeim tíma segir Landsvirkjun að farinn verði „enn einn hringur í leyfisveitingaferlinu.“

„Heimilt er að kæra til úrskurðarnefnda og dómstóla að nýju, sem eykur mjög óvissu um hvenær Hvammsvirkjun verður gangsett. Vonandi verður það ferli eins stutt og kostur er. Við erum þakklát fyrir eindreginn stuðning umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og löggjafans, sem hafa lagt sig fram við að greiða götu þessa verkefnis,“ segir í yfirlýsingu Landsvirkjunar.

Hvammsvirkjun fékk virkjunarleyfi í september 2024 en Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í janúar að ógilda heimild Umhverfisstofnunar um breytingar á vatnshloti í Þjórsá og þar með ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka Hvammsvirkjun.

Landsvirkjun segir að undirbúningsframkvæmdir séu þegar hafnar, svo sem veglagning og undirbúningur vinnubúða. Stór útboð voru áætluð á næstu mánuðum en óvíst hvenær verður af þeim.

Þegar upprunalega var sótt um virkjunarleyfi árið 2021 var gert ráð fyrir að framkvæmdir hefðust árið 2022 og virkjunin yrði gangsett árið 2027. Áætlanir fyrir dómsmálið gerðu ráð fyrir gangsetningu árið 2030 en töfin sem dómurinn hefur í för með sér gæti leitt til umtalsverðrar seinkunar til viðbótar.

Viðbótarkostnaður sem af því hlýst og hefur hlotið undanfarin ár hlaupi á milljörðum króna fyrir Landsvirkjun en tapið sé þó mest fyrir íslenskt samfélag sem verði af verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað á þessum árum.

„Þótt stjórnvöld hyggist hraða leyfisveitingaferlinu, öll gögn liggi fyrir og hafi verið rýnd margoft af sömu aðilum, getur Landsvirkjun þó ekki gengið að því vísu að öll leyfi fáist í tíma og þar með er ljóst að byggingu virkjunarinnar mun seinka enn frekar, kostnaður hækka og miklar tekjur tapast.

Þær tafir sem hafa orðið á framkvæmdinni hafa hins vegar lítið sem ekkert með virkjunina sjálfa að gera eða hvernig Landsvirkjun hefur staðið að undirbúningi hennar, enda er Hvammsvirkjun líklega mest rannsakaða verkefni í sögu orkuvinnslu á Íslandi. Þær byggja á töfum á afgreiðslu rammaáætlunar, kærumálum tengdum umhverfismati, annmörkum á málsmeðferð stofnana og nú því nýjasta, dómum Héraðsdóms og Hæstaréttar,“ segir í yfirlýsingu Landsvirkjunar.