Á undanförnum mánuðum hefur Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur (OR), gengið frá samningum og viðskiptum sem miða að því að styðja við framtíðaráform félagsins um að efla ljósleiðaranet sitt hringinn í kringum landið. Þetta segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans. Hann segir félagið hafa farið af stað í þessa vegferð til að bregðast við breytingum á fjarskiptamarkaði í kjölfar kaupa Ardian á Mílu.
„Þegar salan á okkar helsta samkeppnisaðila, Mílu, til Ardian gekk í gegn breytist markaðurinn. Breytingarnar hófust reyndar aðeins fyrr, eða árið 2021, er talsvert af eignum Símans voru færðar undir Mílu. Á samkeppnismarkaði er mikilvægt að vera vel vakandi og bregðast við þessum breytingum. Nýir eigendur Mílu boðuðu strax miklar fjárfestingar og í kjölfarið þurftum við að komast að því hvernig við gætum keppt við svona sterkan aðila. Við ákváðum að auka þjónustu okkar í meiri mæli á landsbyggðinni og gerðum það meðal annars með því að leigja aðgang að NATO þráðunum.“
Nýjasti samningur sem gengið var frá til að styðja við fyrrnefnd framtíðaráform voru þriggja milljarða kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar.
Nánar er rætt við Erling Frey í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið.