Áfengis- og tóbaks­verslun ríkisins og fjár­málaráðherra Ís­lands, sem fer með yfir­stjórn og eftir­lits­skyldu yfir stofnuninni, hafa verið að viðhalda ólög­mætu ástandi þegar kemur að vöruúr­vali í verslunum ÁTVR.

Rúmir tveir mánuðir eru síðan Hæstiréttur sagði ÁTVR hafa brotið gegn lagaáskilnaðar­reglu stjórnar­skrárinnar með því að miða vöruúr­val út frá fram­legð en að mati Distu ehf. ýtti ÁTVR þannig dýrari vörum að neyt­endum og mis­munaði gagn­vart vörum inn­flytj­enda.

Inn­flutnings­fyrir­tækið Dista ehf. stefndi ÁTVR er tveir bjórar félagsins voru felldir úr sölu á grund­velli fram­legðar­viðmiðs þrátt fyrir að fleiri lítrar hafi selst af þeim en af öðrum bjórum í sama vöru­flokki sem þó voru áfram í sölu.

ÁTVR sýndi ekkert frum­kvæði að yfir­bót í kjölfar dómsins og benti lög­maður Dista, Jónas Fr. Jóns­son, stofnuninni og fjár­málaráðherra á skyldur stjórn­valda til að virða reglur réttarríkisins og megin­reglur stjórnsýsluréttar um að stjórn­völdum bæri að bæta úr þegar þau hefðu gengið á rétt borgaranna.

Undir lok síðasta árs sendi Sigrún Ósk Sigurðar­dóttir, að­stoðar­for­stjóri ÁTVR, Dista bréf þess efnis þar sem kom efnis­lega fram að unnið væri að „nýju viðmiði“ við mat á söluárangri og meðan sú vinna stæði yfir yrðu „tafir á birtingu skrár yfir söluárangur“ og að færsluákvörðunum væri að sama skapi „frestað þar til út­færsla nýs árangur­sviðmiðs liggur fyrir“.

„Það þýðir ekkert að frysta ólög­mætt ástand og hætta að taka inn vörur,“ segir Jónas en ÁTVR hefur ekki verið að taka inn nýjar vörur síðastliðna mánuði. „Þeir eru ekki að taka inn nýjar vörur á grund­velli eftir­spurnar sem er hið lög­mælta viðmið.“

Þá ákvað ÁTVR í byrjun febrúar að fella tvær tegundir af spænsku freyði­víni, Jaume Serra Brut, úr kjarna­flokki á grund­velli fram­leiðar­viðmiðs.

Viðmiðið var sagt brot á stjórnar­skrá í desember í fyrra.

Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.