Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og fjármálaráðherra Íslands, sem fer með yfirstjórn og eftirlitsskyldu yfir stofnuninni, hafa verið að viðhalda ólögmætu ástandi þegar kemur að vöruúrvali í verslunum ÁTVR.
Rúmir tveir mánuðir eru síðan Hæstiréttur sagði ÁTVR hafa brotið gegn lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar með því að miða vöruúrval út frá framlegð en að mati Distu ehf. ýtti ÁTVR þannig dýrari vörum að neytendum og mismunaði gagnvart vörum innflytjenda.
Innflutningsfyrirtækið Dista ehf. stefndi ÁTVR er tveir bjórar félagsins voru felldir úr sölu á grundvelli framlegðarviðmiðs þrátt fyrir að fleiri lítrar hafi selst af þeim en af öðrum bjórum í sama vöruflokki sem þó voru áfram í sölu.
ÁTVR sýndi ekkert frumkvæði að yfirbót í kjölfar dómsins og benti lögmaður Dista, Jónas Fr. Jónsson, stofnuninni og fjármálaráðherra á skyldur stjórnvalda til að virða reglur réttarríkisins og meginreglur stjórnsýsluréttar um að stjórnvöldum bæri að bæta úr þegar þau hefðu gengið á rétt borgaranna.
Undir lok síðasta árs sendi Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, Dista bréf þess efnis þar sem kom efnislega fram að unnið væri að „nýju viðmiði“ við mat á söluárangri og meðan sú vinna stæði yfir yrðu „tafir á birtingu skrár yfir söluárangur“ og að færsluákvörðunum væri að sama skapi „frestað þar til útfærsla nýs árangursviðmiðs liggur fyrir“.
„Það þýðir ekkert að frysta ólögmætt ástand og hætta að taka inn vörur,“ segir Jónas en ÁTVR hefur ekki verið að taka inn nýjar vörur síðastliðna mánuði. „Þeir eru ekki að taka inn nýjar vörur á grundvelli eftirspurnar sem er hið lögmælta viðmið.“
Þá ákvað ÁTVR í byrjun febrúar að fella tvær tegundir af spænsku freyðivíni, Jaume Serra Brut, úr kjarnaflokki á grundvelli framleiðarviðmiðs.
Viðmiðið var sagt brot á stjórnarskrá í desember í fyrra.
Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.