Eftir mikla áherslu á bandarísk hlutabréf undanfarin ár eru fjárfestar nú farnir að leita til Evrópu til að finna góða ávöxtun.
Bandarísk hlutabréf hafa verið ráðandi í alþjóðlegum fjárfestingum, en sívaxandi verðmæti og óvissa í stefnu Bandaríkjastjórnar eru meðal þátta sem ýta undir áhuga á Evrópu og öðrum mörkuðum.
The Wall Street Journal ræddi við nokkra fjárfesta sem eru að færa eignasöfn sín hægt og rólega yfir Atlantshafið.
Meðal þeirra er írski fjárfestirinn Keith Moffat, sem fæddist í Kanada en býr í Hollandi, en hann hafði fram að þessu nær einungis keypt bandarísk hlutabréf.
Á undanförnum vikum hefur hann hins vegar selt allar bandarísku eignir sínar og fjárfest í sjóðum sem einblína á evrópsk og alþjóðleg fyrirtæki, auk þess sem hann hefur keypt hlutabréf í evrópskum varnariðnaði.
Moffat telur að bandarísk hlutabréf séu of hátt verðlögð um þessar mundir og segir að ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta um Kanada sem „51. ríkið“ hafi átt sinn þátt í ákvörðuninni.
„Það var kornið sem fyllti mælinn,“ segir hann. „Það eru margir Evrópubúar með fé sem eru ósáttir við þróunina í Bandaríkjunum. Af hverju ættum við að setja peningana okkar þangað?“
JPMorgan Chase lýsti því yfir í janúar að bandaríkjamarkaður yrði ráðandi á árinu en nú eru margir fjárfestar hins vegar farnir að endurskoða þá nálgun og horfa í auknum mæli til Evrópu og Kína.
Á sama tíma og bandarísk stjórnvöld herða viðskiptastefnu sína hafa markaðir í Evrópu og Kína sýnt merki um styrk og betri vaxtarmöguleika en margir bjuggust við.
Evrópskur hlutabréfamarkaður fékk aukinn meðbyr síðastliðinn föstudag þegar þýska stjórnin kynnti áform um að dæla allt að einni billjón (e. trillion) evra í hagkerfið, að stórum hluta til að efla varnarviðbúnað landsins.
DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um næstum 15% á þessu ári og margir fjárfestar vona að þessi umfangsmikla ríkisfjárfesting muni hjálpa Þýskalandi að komast úr efnahagslægð.
Varnariðnaður í Evrópu hefur einnig notið mikillar uppsveiflu þar sem löndin þar í álfu auka hernaðarútgjöld sín í ljósi þess að Bandaríkin virðast draga sig í auknum mæli út úr alþjóðamálum.
Lia Holmgren, fjárfestir frá Slóveníu sem býr í Miami og meðstofnandi Trading Mindset & Data, hefur sérhæft sig í að þjálfa nýja fjárfesta í gegnum samfélagsmiðla.
Hún segir að Evrópa hafi verið „í dvala“ í mörg ár, en nú sjái hún tækifæri í evrópskum bönkum og fyrirtækjum í varnariðnaði. Hún hefur sjálf fært skammtímafjárfestingar sínar yfir í þessa geira.
„Allir fjárfesta í bandarískum hlutabréfum,“ segir Lia. „Þarna eru heimsklassa fyrirtæki. En verðmætin eru brjáluð. Hver er framtíðin fyrir þessi fyrirtæki? Getur Nvidia tífaldast aftur? Þess vegna er fólk að leita annað.“
Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2025 lögðu fjárfestar meira en 2 milljarða dala í bandaríska verðbréfasjóði sem einblína á evrópsk hlutabréf, samkvæmt Morningstar.
Þetta er skörp breyting frá seinni hluta árs 2024, þegar meira en 8,5 milljarðar dala voru teknir út úr slíkum sjóðum.
Á sama tíma var innflæði fjármagns í bandaríska hlutabréfavísitölusjóði hægara en á síðustu tveimur mánuðum ársins 2024.
Það sem af er ári hefur S&P 500 lækkað um 3,6%, á meðan STOXX Europe 600 hefur hækkað um 8,3%.
En þótt sumir fjárfestar séu farnir að leita annarra tækifæra þá eru enn margir sem halda tryggð við bandarísk hlutabréf.
Andrew Barnett, fjárfestir í Queensland, Ástralíu, hefur áhyggjur af áhrifum bandarískrar stjórnarstefnu á hagvöxt. Hann hefur fært yfir helming eignasafns síns í erlend hlutabréf, þar á meðal í LVMH og Alibaba.
Hann er þó enn sannfærður um að Bandaríkin séu í fararbroddi í viðskiptum og nýsköpun.
„Það eru 27 lönd í Evrópusambandinu,“ segir hann. „Þau hafa 27 mismunandi menningarheima, tungumál og eftirlaunaaldur. Ég held að Bandaríkin muni alltaf standa sig betur en Evrópa. En á vissum tímabilum, eins og núna, geta opnast spennandi tækifæri annars staðar.“