„Viðhorf til hagnaðar og arðsemi þarf að breytast í samfélaginu ef byggja á upp kraftmikið atvinnulíf sem skapar verðmæti og vel launuð störf. Kveða þarf þann plagsið í kútinn sem birtist í fortölum um hagnað í krónutölum sem fæstir bera nokkurt skynbragð á,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, í aðsendri grein í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem kom nýverið út.
Hagnaður sem hlutfall af tekjum er að sögn Ólafs prýðileg kennitala um rekstrarafkomu á milli ára.
„Hagnaður gerir fyrirtækjum mögulegt að greiða niður skuldir, fjárfesta í nýsköpun og tryggir sjálfbærni til lengri tíma. Þegar fyrirtæki skila hagnaði er meira svigrúm til að bjóða starfsfólki betri kjör og verðmætari störf. Hagnaður gerir fyrirtækjum mögulegt að laga efnahaginn að aðstæðum á hverjum tíma, greiða hluthöfum arð eða byggja upp varasjóði sé þörf á því,“ segir í grein Ólafs.
„Það væri jafnvel hægt að tala um hagnað á hlut sem birtist þá sem 2,6 kr. á hlut og ólíklegt að nokkur missi svefn yfir því. Hagnaðarhlutfall 500 stærstu hefur fallið sl. þrjú ár en er að meðaltali um 7% sl. tíu ár. Vitrænna væri að taka upplýsta umræðu um hlutfallið heldur en að bölsótast yfir fjárhæðum án nokkurs samhengis,“ segir jafnframt í greininni.
Það sama megi segja um arðsemi eigin fjár. Arðsemi eigin fjár sé mælikvarði á það hversu vel fyrirtæki nýti það hlutafé sem hluthafar leggja því til. Skilvirk hagnýting á hlutafé sé forsenda þess að hluthafar vilji taka þá umfram áhættu sem felst í hlutafé borið saman við áhættulausa vexti.
„Þó að arðsemi eigin fjár ráðist af fjárhagsskipan fyrirtækja, þjóna upplýsingarnar tilgangi í samskiptum við haghafa. Er arðsemin í samræmi við þá áhættu sem fyrirtæki taka í rekstri, svo dæmi sé tekið?,“ skrifar Ólafur.
„Samkvæmt eigendastefnu ríkisins segir að arðsemi fyrirtækja í eigu hins opinbera skuli vera í samræmi við áhættu sem hlýst af rekstrinum. Hver er áhættan og hvað finnst stjórnvöldum og haghöfum vera viðunandi arðsemi umfram áhættulausa vexti. Eina haldreipið í afstöðu stjórnvalda er leyfð arðsemi fyrirtækja í sérleyfisstarfsemi,“ segir í greininni.
Þannig hafi faglegum umræðugrundvelli verið skotið undir einokunarstarfsemi Landsnets hvar engum öðrum sé til að dreifa með raforku í jafn strjálbýlu landi og raun beri vitni. Leyfð arðsemi sé ákvörðuð á grundvelli vegins fjármagnskostnaðar og hafi verið 8,5% að meðaltali sl. tíu ár.
„Vegin meðaltalsarðsemi eftir skatt 300 stærstu fyrirtækja landsins yfir sama tímabil hefur verið 9,9% og ef tekið er tillit til verðbólgu var hún 6,3% fyrir tímabilið. Raunvaxtastigið þegar þetta er skrifað er 4% og væri ekki nær að taka upplýsta umræðu um þá tölu heldur en að mismuna atvinnugreinum með skattlagningu sem gerir samanburð á arðsemi eftir skatt ónákvæman.“
Ólafur bendir á að gagnasaga Frjálsrar verslunar bjóði upp á samanburð á arðsemi atvinnugreina fyrir skatt sem gæti þjónað upplýstri umræðu um raunverulegar tölur í stað upphrópana án þess að nokkur þurfi að rökstyðja mál sitt.
„Dæmið sýnir að samkeppnisrekstur er 1,4 prósentustigum fyrir ofan einokunarstarfsemi sem skammtar sér tekjur eftir tilgreindum forsendum. Í öðrum tilfellum eru fyrirtæki í eigu hins opinbera jafnvel í samkeppnisrekstri með meiri arðsemi en önnur fyrirtæki í sömu atvinnugrein og þá er arðsemin í viðskiptahagkerfinu hrakyrt á meðan henni er fagnað hjá opinberum fyrirtækjum og arðgreiðsluhlutfallið jafnvel hækkað ef eigendur vantar pening.“
Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta lesið greinina hér.