Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, segir að greina þurfi betur áhættur í lífeyriskerfinu. Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun sagði hann að sökum þess hve stórt kerfið er orðið þurfi að velta fyrir sér hvort það ætti að „brjóta upp“ kerfið þannig að séreignarsparnaður renni ekki í sömu sjóði og skyldusparnaður.

„Af því að þetta veldur ákveðnum vandamálum varðandi stjórnarhætti,“ sagði Gunnar og minntist sérstaklega á áhrif á eignarhald í íslenskum félögum og fjárfestingum.

„Þetta getur leitt til þess að tiltölulega smáir eigendur félaga verði ráðandi eigendur í félaginu af því að lífeyrissjóðirnir eru hinir hljóðlátu eigendur.“

Ásgeir hafði skömmu áður lýst því yfir að þörf væri á endurskoðun á löggjöf um lífeyrissjóði. Það hafi verið rætt margoft hjá Seðlabankanum. Hann telur að það þurfi að setja sérstaka löggjöf um viðbótarlífeyrissparnað og aðgreina hann frá skyldusparnaðinum.

„Ég tel líka að út frá fjármálastöðugleika að þá þurfum við auknar heimildir bara til að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika. Ekki það, lífeyriskerfið er mjög gott og hefur staðist mjög vel að mörgu leyti. Það er hins vegar stærra en bankakerfið. Heildareignir lífeyrissjóðanna eru meiri en eignir bankanna.“

Ásgeir nefndi einnig að það sé óheppilegt að mörgu leyti að eftirlit með lífeyrissjóðum sé á tveimur stöðum, bæði hjá fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði