Nýjustu verðbólgutölur benda til þess að vextir verði ekki lækkaðir mikið meira á árinu og gæti því vaxtamunur Íslands við útlönd aukist ef vextir halda áfram að lækka erlendis.
Verðbólga mældist 4,2% í júní og spáir til að mynda hagfræðideild Landsbankans að hún verði um 4,3% í lok árs.
Greiningaraðilar og sérfræðingar á mörkuðum eru á báðum áttum með hvort fram undan sé tækifæri fyrir erlenda fjárfesta að nýta sér vaxtamun Íslands við útlönd til að fjárfesta í íslenskum verðbréfum en helstu áhyggjurnar snúa að því hvort gengi krónunnar sé of sterkt.
Gengismunurinn gæti því étið upp vaxtamuninn en það er þó erfitt að spá fyrir um hvernig gengisþróun krónunnar verður áður en árið er úti.
Frá því um miðjan febrúar hefur gengi íslensku krónunnar verið að hækka eftir skammvinna lækkun í byrjun árs.
Gengisvísitala krónunnar, sem mælir vegið meðaltal af gengi krónunnar gagnvart gjaldmiðlum þeirra ríkja sem Ísland á mest utanríkisviðskipti við, var tæplega 192 stig á fyrsta fjórðungi ársins.
Þrátt fyrir að hún hafi lækkað niður í tæplega 182 stig á mánudaginn, eftir tæplega 2,6% lækkun í júnímánuði, er margt sem bendir til þess að krónan sé ekki að fara að gefa eftir.
Til að mynda hefur dregið úr framvirkri stöðutöku með krónunni.
Viðskiptavinir bankanna, t.d. ferðaþjónustufyrirtæki, hafa ekki selt jafnháar fjárhæðir af gjaldeyri framvirkt og áður.
Í lok maí var staðan um 102 milljarðar en á sama tímabili í fyrra var um að ræða 175 milljarða.
Þó að þetta þýði að fjárfestar búist ekki við frekari hækkun á gengi krónunnar mun þetta líklegast valda því að innflæði gjaldeyris í háönn ferðaþjónustunnar í júlí og ágúst muni hafa meiri áhrif á krónuna en ef það væri búið að selja meiri gjaldeyri framvirkt.

Því þrátt fyrir neikvæðar spár stefnir í allmyndarlegt sumar hjá ferðaþjónustunni og töluvert innflæði.
Lífeyrissjóðir hafa einnig keypt minna af gjaldeyri á fyrri hluta árs, en þeir fengu hátt í 100 milljarða í sínar hendur í erlendum gjaldeyri vegna uppgjörs JBT á kaupum Marel og fyrir HFF-bréfin í uppgjöri ríkisins á ÍL-sjóði.
Til samanburðar keyptu lífeyrissjóðirnir gjaldeyri fyrir 80 milljarða í fyrra. Verði það raunin að þeir haldi áfram að kaupa lítið af gjaldeyri mun gengið líklegast halda áfram að styrkjast.
Á hinni hlið krónunnar má líta til þess að Seðlabankinn hóf reglubundin gjaldeyriskaup á millibankamarkaði fyrir samtals 6 milljónir evra á viku.
í apríl. Fyrir tveimur vikum greindi bankinn frá því að reglubundin gjaldeyriskaup myndu tvöfaldast í 12 milljónir evra í hverri viku.
Bókunarstaða ferðaþjónustufyrirtækja er ekki jafn sterk fyrir veturinn og áður, sem gæti valdið minna innflæði í haust og vetur.
Lífeyrissjóðir gætu hafið gjaldeyriskaup að nýju samhliða því að óvissa minnkar á alþjóðlegum mörkuðum og þeir hefja fjárfestingar í meira magni erlendis, með sterka krónu í farteskinu.
Þannig gæti gengi krónunnar veikst í haust og blómleg staða vaxtamunaviðskipta yrði þá til staðar fyrir erlenda fjárfesta með áhuga á íslenskum verðbréfum.
Áskrifendur geta lesið ítarlega umfjöllun Viðskiptablaðsins um verðbólguvæntingar, krónuna og vaxtamunaviðskipti hér.
Þar er meðal annars rætt við aðalhagfræðing Íslandsbanka, forstöðumann skuldabréfamiðlunar Arionbanka, Agnar Tómas Möller skuldabréfafjárfesti og Konráð S. Guðjónsson hagfræðing.