Nýjustu verðbólgutölur benda til þess að vextir verði ekki lækkaðir mikið meira á árinu og gæti því vaxta­munur Ís­lands við útlönd aukist ef vextir halda áfram að lækka er­lendis.

Verðbólga mældist 4,2% í júní og spáir til að mynda hag­fræði­deild Lands­bankans að hún verði um 4,3% í lok árs.

Greiningaraðilar og sér­fræðingar á mörkuðum eru á báðum áttum með hvort fram undan sé tækifæri fyrir er­lenda fjár­festa að nýta sér vaxta­mun Ís­lands við útlönd til að fjár­festa í ís­lenskum verðbréfum en helstu áhyggjurnar snúa að því hvort gengi krónunnar sé of sterkt.

Gengis­munurinn gæti því étið upp vaxta­muninn en það er þó erfitt að spá fyrir um hvernig gengisþróun krónunnar verður áður en árið er úti.

Frá því um miðjan febrúar hefur gengi ís­lensku krónunnar verið að hækka eftir skamm­vinna lækkun í byrjun árs.

Gengis­vísi­tala krónunnar, sem mælir vegið meðal­tal af gengi krónunnar gagn­vart gjald­miðlum þeirra ríkja sem Ís­land á mest utan­ríkis­við­skipti við, var tæp­lega 192 stig á fyrsta fjórðungi ársins.

Þrátt fyrir að hún hafi lækkað niður í tæp­lega 182 stig á mánu­daginn, eftir tæp­lega 2,6% lækkun í júnímánuði, er margt sem bendir til þess að krónan sé ekki að fara að gefa eftir.

Til að mynda hefur dregið úr fram­virkri stöðutöku með krónunni.

Við­skipta­vinir bankanna, t.d. ferðaþjónustu­fyrir­tæki, hafa ekki selt jafn­háar fjár­hæðir af gjald­eyri fram­virkt og áður.

Í lok maí var staðan um 102 milljarðar en á sama tíma­bili í fyrra var um að ræða 175 milljarða.

Þó að þetta þýði að fjár­festar búist ekki við frekari hækkun á gengi krónunnar mun þetta lík­legast valda því að inn­flæði gjald­eyris í háönn ferðaþjónustunnar í júlí og ágúst muni hafa meiri áhrif á krónuna en ef það væri búið að selja meiri gjald­eyri fram­virkt.

Krónan hefur styrkt sig um rúm 13% gagnvart Bandríkjadal sl. 6 mánuði. Veikur Bandaríkjadalur á þar sinn þátt þó.
Krónan hefur styrkt sig um rúm 13% gagnvart Bandríkjadal sl. 6 mánuði. Veikur Bandaríkjadalur á þar sinn þátt þó.

Því þrátt fyrir neikvæðar spár stefnir í all­myndar­legt sumar hjá ferðaþjónustunni og tölu­vert inn­flæði.

Líf­eyris­sjóðir hafa einnig keypt minna af gjald­eyri á fyrri hluta árs, en þeir fengu hátt í 100 milljarða í sínar hendur í er­lendum gjald­eyri vegna upp­gjörs JBT á kaupum Marel og fyrir HFF-bréfin í upp­gjöri ríkisins á ÍL-sjóði.

Til saman­burðar keyptu líf­eyris­sjóðirnir gjald­eyri fyrir 80 milljarða í fyrra. Verði það raunin að þeir haldi áfram að kaupa lítið af gjald­eyri mun gengið lík­legast halda áfram að styrkjast.

Á hinni hlið krónunnar má líta til þess að Seðla­bankinn hóf reglu­bundin gjald­eyris­kaup á milli­banka­markaði fyrir sam­tals 6 milljónir evra á viku.

í apríl. Fyrir tveimur vikum greindi bankinn frá því að reglu­bundin gjald­eyris­kaup myndu tvöfaldast í 12 milljónir evra í hverri viku.

Bókunar­staða ferðaþjónustu­fyrir­tækja er ekki jafn sterk fyrir veturinn og áður, sem gæti valdið minna inn­flæði í haust og vetur.

Líf­eyris­sjóðir gætu hafið gjald­eyris­kaup að nýju sam­hliða því að óvissa minnkar á alþjóð­legum mörkuðum og þeir hefja fjár­festingar í meira magni er­lendis, með sterka krónu í far­teskinu.

Þannig gæti gengi krónunnar veikst í haust og blóm­leg staða vaxta­muna­við­skipta yrði þá til staðar fyrir er­lenda fjár­festa með áhuga á ís­lenskum verðbréfum.

Áskrif­endur geta lesið ítar­lega um­fjöllun Við­skipta­blaðsins um verðbólgu­væntingar, krónuna og vaxta­muna­við­skipti hér.

Þar er meðal annars rætt við aðal­hag­fræðing Ís­lands­banka, for­stöðu­mann skulda­bréfa­miðlunar Arion­banka, Agnar Tómas Möller skulda­bréfa­fjár­festi og Kon­ráð S. Guðjóns­son hag­fræðing.