Viðskiptaafgangur Rússlands náði nýjum hæðum í fyrra eftir að innflutningur dróst verulega saman og verðmæti útflutnings jókst samhliða hækkun á olíu- og gasverði í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Reuters greinir frá.

Viðskiptaafgangur Rússa, þ.e. mismunur á verðmæti útfluttrar og innfluttrar vöru og þjónustu, nam 282 milljörðum dala árið 2022 sem er 66% aukning frá árinu 2021 þegar hann nam 170 milljörðum dala.

Greiðslujöfnuður var jákvæður um 227 milljarða dala. Hreint fjármagnsútstreymi, þ.e. uppbygging eigna innlendra aðila erlendis umfram aukningu eigna erlendra aðila innanlands, nam 55 milljörðum dala, samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Rússlands.

Verðmæti innflutnings dróst saman um 9% sem má m.a. rekja til viðskiptaþvingana vestrænna ríkja á Rússland í kjölfar innrásarinnar. Þá jókst verðmæti útflutnings í Bandaríkjadölum um 14% sem seðlabankinn rekur einkum til hækkun hrávöruverðs í fyrra.