Í kjölfar þess að upplýsingalögum var breytt árið 2019, sem hafði það í för með sér að stjórnsýslu Alþingis var kippt undir gildissvið laganna, freistaði Viðskiptablaðið þess að fá greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, afhenta hjá þinginu.
Það var eftir að blaðið hafði verið gert afturreka með sama erindi hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) vegna sérstaks þagnarskylduákvæðis, sem gildi um starfsemi Ríkisendurskoðunar.
Lagaskrifstofa Alþingis og síðar forsætisnefnd þingsins komust að sömu niðurstöðu, en forsætisnefnd féllst svo á endurupptöku málsins snemma árs 2021. Þá réð nefndin Flóka Ásgeirsson lögmann til að fara yfir málið og kanna hvort blaðið ætti rétt á aðgangi að greinargerð Sigurðar.
Flóki komst að þeirri niðurstöðu að nefndinni bæri að afhenda skjalið og lá sú niðurstaða fyrir í apríl 2021. Í kjölfarið var þingi slitið og kosningar fóru fram. Ný forsætisnefnd, sem nú er leidd af Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, ákvað þann 25. apríl í fyrra að Viðskiptablaðinu yrði afhent greinargerðin. Þá lýstu Lindarhvoll og Ríkisendurskoðun mikilli andstöðu sinni í bréfum til forsætisnefndar.
Tímalína:
- Apríl 2016: Lindarhvoll stofnaður til að selja eignir sem ríkið fékk eftir stöðugleikasamning við slitabú fjármálafyrirtækja.
- September 2016: Lindarhvoll auglýsir til sölu hlut í Klakka, Glitni HoldCo og Gamla Byr.
- Október 2016: Þrjú tilboð berast í hlutinn frá BLM fjárfestingu, Ásaflöt og Kviku banka í umboði fyrir Frigus II. Gengið er til samninga við BLM fjárfestingu þrátt fyrir andmæli Frigus II.
- Febrúar 2018: Lindarhvoli slitið eftir að óseldar eignir voru færðar í LSR.
- Mars 2018: Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kemst að þeirri niðurstöðu að Lindarhvoli beri að veita Frigus II gögn um söluferlið á Klakka.
- Júlí 2018: Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilar greinargerð um starfsemi Lindarhvols.
- September 2020: Frigus II stefnir Lindarhvoli og íslenska ríkinu.
- Apríl 2020: Ríkisendurskoðun skilar skýrslu um starfsemi Lindarhvols til Alþingis.
- Júlí 2020: Viðskiptablaðið óskar eftir afriti af greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol frá Alþingi.
- Febrúar 2021: Forsætisnefnd felst á endurupptöku beiðni Viðskiptablaðsins um aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol eftir að hafa hafnað upphaflegri beiðni.
- Apríl 2022: Forsætisnefnd samþykkir að afhenda Viðskiptablaðinu greinargerð Sigurðar eftir að hafa aflað lögfræðiálits en frestar afhendingunni eftir mótbárur fjármálaráðuneytisins og Lindarhvols.
- Janúar 2023: Aðalmeðferð í bótamáli Frigusar II vegna sölunnar á Klakka.
- Febrúar 2023: Forsætisnefnd hefur ekki afgreitt endurupptekna beiðni Viðskiptablaðsins um aðgang að greinargerð Sigurðar um Lindarhvol þrátt fyrir vilja meirihluta nefndarmanna.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 16. febrúar.