Viðskiptahalli Bandaríkjanna náði nýjum hæðum í mars síðastliðnum sem The Wall Street Journal rekur til þess að innflytjendur drifu sig margir hverjir að flytja inn vörur erlendis frá áður en nýir tollar ríkisstjórnar Donalds Trumps tóku gildi.
Innflutningur til Bandaríkjanna jókst um 4,4% í mars og nam 419 milljörðum dala, samkvæmt nýbirtum tölum viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna. Útflutningur jókst lítillega og nam 278,5 milljörðum dala.
Viðskiptahallinn jókst því um 14% milli mánaða og nam 140,5 milljörðum dala í mars. Hallinn jókst meira en greinendur höfðu spáð.
Að ná fram jafnvægi í utanríkisviðskiptum er eitt af helstu markmiðum viðskiptastefnu Trumps. Þar sem fyrirtæki hafa búið sig undir nýja tolla hefur tollastefna stjórnvalda enn sem komið er haft öfug áhrif, þ.e. hvatt fyrirtæki til að flytja inn vörur eins hratt og unnt er áður en hinir nýju tollar taka gildi.
Í umfjöllun WSJ segir að tölur fyrir aprílmánuð, sem eru væntanlegar í næsta mánuði, muni gefa skýrari mynd af því hvernig utanríkisviðskiptin þróuðust eftir að Trump tilkynnti um umfangsmikla tolla á frægum blaðamannafundi 2. apríl síðastliðinn.