Utanríkisviðskipti hafa aukist verulega á þessu ári eftir að heimsfaraldrinum lauk og heimshagkerfið tók að færast nær fyrra horfi á ný.
Vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd námu 2.619 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins og jukust um 46% frá sama tímabili árið áður.
Fram til ársins 2020 skilaði Ísland viðskiptaafgangi í níu ár í röð þar sem ferðaþjónustan dró vagninn í vexti útflutningstekna. Margir gerðu sér vonir um viðvarandi viðskiptaafgang, og var jafnvel gert að því skóna að Ísland gæti orðið eins konar „Sviss norðursins“.
Ríflegur halli í ár og enn meiri á því næsta
Viðskiptahalli á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 64,5 milljörðum króna, og Seðlabankinn spáir því að enn bætist í hann á þessum fjórðungi. Árið endi því í 78 milljarða halla og samkvæmt nýjustu spá telur hann stefna í 107 milljarða halla á næsta ári eða 2,7% vergrar landsframleiðslu. Stóraukinn útflutningur muni einfaldlega ekki halda í við æ kröftugri einkaneyslu.
Á kynningarfundi Fjármálastöðugleikanefndar í síðustu viku sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri það áhyggjuefni að helstu viðskiptaþjóðir Íslands stefndu í efnahagslægð eða samdrátt, sem dregið gæti úr greiðslugetu þeirra og þar með útflutningstekjum okkar. Bankinn spáir nú 2,6% hagvexti hér á landi á næsta ári, en aðeins 0,6% í okkar helstu viðskiptalöndum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.