Breskt viðskiptalíf er farið að styðja við Verkamannaflokkinn með stórum fjárveitingum í fyrsta sinn í langan tíma. Stjórnmálaflokkurinn hefur safnað hundruð þúsund punda frá fyrirtækjum og fjársterkum einstaklingum á undanförnum mánuðum. The Times greinir frá.
Verkamannaflokkurinn hefur hafið herferð til að bæta samband sitt við atvinnulífið, sem versnaði töluvert eftir leiðtogatíð Jeremy Corbyn. Flokkurinn efndi til ráðstefnu í Canary Wharf fjármálahverfinu í London fyrr í mánuðinum. Margir þekktir aðilar úr breska viðskiptalífinu voru viðstaddir, þar á meðal John Allan, stjórnarformaður Tesco, og Amanda Blanc, forstjóri Aviva.
Fylgi Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum hefur stóraukist að undanförnu, ekki síst vegna hrakfara Íhaldsflokksins í ríkisstjórn.
Söfnuðu jafnmiklu og Íhaldsflokkurinn
Verkamannaflokkurinn safnaði jafn miklu og Íhaldsflokkurinn á þriðja ársfjórðungi en flokkarnir fengu hvor um sig styrki að fjárhæð 2,8 milljónir punda eða hátt í hálfan milljarð króna. Verkamannaflokkurinn reiðir sig enn mikið á reglulega styrki verkalýðsfélaga en þrjú stærstu stéttarfélögin veittu flokkinum 1,2 milljónir punda í styrki.
Meðal bakhjarla Verkamannaflokksins úr viðskiptalífinu er fjölskyldan á bak við River Island fataverslanakeðjuna og yfirmenn hjá iðn-, fjárfestingar- og fjölmiðlafyrirtækjum sem styrktu áður Íhaldsflokkinn og Frjálslynda demókrata.
Clive Lewis, stjórnarformaður River Island og Blue Coast Capital, veitti Verkamannaflokknum 100 þúsund punda styrk í ágúst, eða sem nemur 17,4 milljónum króna á gengi dagsins.
Meðal annarra bakhjarla er Fred Story, 66 ára gamall forstjóri fasteignaþróunarfélagsins Story Holmes í Carlisle, sem veitti flokknum 100 þúsund pund í styrk. Story er fyrrum stuðningsmaður Brexit og fyrirtækið hann hefur áður stutt þingmenn Íhaldsflokksins.