Greiningardeild hollenska fjárfestingabankans ING telur líklegt að yfirvofandi tollar á útflutningsvörur evrópskra fyrirtækja til Bandaríkjanna gæti leitt til efnahagslægðar eða jafnvel kreppuástands í álfunni.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur lofað um 10% tolla á allar innfluttar vörur til Bandaríkjanna. Þá hefur einnig verið talað um allt að 20% tolla á valdar vörur frá Evrópu.
„Efnahagur Þýskalands er nú þegar í töluverðum vandræðum en Þjóðverjar eru mjög háðir útflutningi til Bandaríkjanna. Tollarnir munu sérstaklega hafa neikvæð áhrif á þýska bílaframleiðendur,“ segir í greiningu bankans.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær lækkuðu hlutabréf í þýskum bílaframleiðendum verulega eftir að úrslitin urðu ljós vestanhafs.
„Þar að auki mun óvissan í kringum afstöðu Trump til Úkraínu og NATÓ grafa undan nýfengnum stöðugleika á evrusvæðinu. Þótt tollarnir verði ekki lagðir á fyrr en seint árið 2025 þá mun óvissan og óttinn í kringum viðskiptastríðið valda samdrætti í Evrópu á næsta ári,“ segir ING.
Að mati fjárfestingabankans mun Evrópski seðlabankinn þurfa að bera þungann af því að verja evrusvæðið fyrir samdrætti á meðan óvissa ríkir um hvernig tollarnir verða framkvæmdir.
„Eftir kosningarnar vestanhafs eru meiri líkur á 50 punkta lækkun í desember og að vextir verði lækkaðir í að minnsta kosti 1,75% fyrir næsta sumar,“ segir í greiningu bankans.
Even though Trump's tariffs might not impact Europe until late 2025, the renewed uncertainty and trade war fears could drive the eurozone economy into recession at the turn of the year.https://t.co/mPyiauahuO
— ING Economics (@ING_Economics) November 6, 2024