Greiningar­deild hollenska fjár­festinga­bankans ING telur lík­legt að yfir­vofandi tollar á út­flutnings­vörur evrópskra fyrir­tækja til Bandaríkjanna gæti leitt til efna­hags­lægðar eða jafn­vel kreppuástands í álfunni.

Donald Trump, nýkjörinn for­seti Bandaríkjanna, hefur lofað um 10% tolla á allar inn­fluttar vörur til Bandaríkjanna. Þá hefur einnig verið talað um allt að 20% tolla á valdar vörur frá Evrópu.

„Efna­hagur Þýska­lands er nú þegar í tölu­verðum vand­ræðum en Þjóðverjar eru mjög háðir út­flutningi til Bandaríkjanna. Tollarnir munu sér­stak­lega hafa neikvæð áhrif á þýska bíla­fram­leiðendur,“ segir í greiningu bankans.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær lækkuðu hluta­bréf í þýskum bíla­fram­leiðendum veru­lega eftir að úr­slitin urðu ljós vestan­hafs.

„Þar að auki mun óvissan í kringum af­stöðu Trump til Úkraínu og NATÓ grafa undan ný­fengnum stöðug­leika á evru­svæðinu. Þótt tollarnir verði ekki lagðir á fyrr en seint árið 2025 þá mun óvissan og óttinn í kringum við­skipta­stríðið valda sam­drætti í Evrópu á næsta ári,“ segir ING.

Að mati fjár­festinga­bankans mun Evrópski seðla­bankinn þurfa að bera þungann af því að verja evru­svæðið fyrir sam­drætti á meðan óvissa ríkir um hvernig tollarnir verða fram­kvæmdir.

„Eftir kosningarnar vestan­hafs eru meiri líkur á 50 punkta lækkun í desember og að vextir verði lækkaðir í að minnsta kosti 1,75% fyrir næsta sumar,“ segir í greiningu bankans.