Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar fundaði með Xi Jinping forseta Kína í dag í höfuðborginni Peking. Fyrir fundinn sagði Sanchez að Spánverjar vildu vinna að samkomulagi við Alþjóðaviðskiptastofnunina vegna viðbótartolla ESB á Kína.

Kínversk stjórnvöld vöruðu við því í júní að tollar á kínverska rafbíla gætu leitt til viðskiptastríðs. Kína hefur þegar svarað tollunum með eigin rannsókn á innfluttu svínakjöti frá Evrópu.

Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar fundaði með Xi Jinping forseta Kína í dag í höfuðborginni Peking. Fyrir fundinn sagði Sanchez að Spánverjar vildu vinna að samkomulagi við Alþjóðaviðskiptastofnunina vegna viðbótartolla ESB á Kína.

Kínversk stjórnvöld vöruðu við því í júní að tollar á kínverska rafbíla gætu leitt til viðskiptastríðs. Kína hefur þegar svarað tollunum með eigin rannsókn á innfluttu svínakjöti frá Evrópu.

Spánverjar fluttu út 1,5 milljarða dala virði af svínakjöti til Kína árið 2023. Til samanburðar fluttu Hollendingar út 620 milljónir dala virði af svínakjöti og Danir 608 milljónir dala. Spánverjar seldu einnig 50 milljónir dala af mjólkurvörum til Kína.

„Viðskiptastríð myndi ekki gagnast neinum. Við viljum byggja brýr saman til að verja viðskipti og gera þau sanngjörn,“ sagði Sanchez við Li Qiang, forsætisráðherra Kína.

Spánverjar vilja þó staðfestingu á að Kínverjar muni ekki hefna sín á sambandinu með því að hækka eigin tolla á stórum bensínbílum, eins og kínverskir ríkisfjölmiðlar hafa gefið til kynna. Slíkir tollar myndu skaða spænska bílaframleiðandann SEAT sem er jafnframt einn stærsti vinnuveitandi Spánar.

Ríkisrekna dagblaðið Global Times segir að það sé mikilvægt fyrir Kína og Spán að eiga uppbyggileg samskipti um viðskipti. Kínversk stjórnvöld hafi þá þegar leitað til aðildarríkja ESB um að hafna tillögu framkvæmdastjórnar um að leggja 36,3% tolla á kínverska rafbíla sem kosið verður um í október.

Norðmenn einnig í heimsókn í Kína

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, er einnig staddur í Kína. Í tilkynningu frá norska sendiráðinu í Shanghai til Global Times segir að forsætisráðherrann muni sækja fund á vegum norska sjávarafurðaráðsins og sækir einnig viðburð í Fudan-háskólanum í Shanghai.

Hann verður þá viðstaddur skírnarathöfn á skipi í eigu norsks fyrirtækis sem smíðað var í Nantong, skammt frá Shanghai. Hátt í 55 skip í eigu norskra útgerðarfyrirtækja eru nú í smíðum í Kína.

Ríkisfjölmiðlar segja að heimsóknir þessara þjóðarleiðtoga séu í samræmi við nýlega þróun Evrópuríkja um að auka stöðugleika í samskiptum við Kína. Fyrr í sumar heimsótti til að mynda Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu Kína. Á fimm daga ferðalagi sínu undirritaði hún þriggja ára áætlun sem átti að efla efnahagslegt samstarf ríkjanna.