Viðskiptaþjónusta VITA hefur skipt um nafn og mun nú ganga undir nafninu Feria. Starfsfólki og viðskiptavinum var af því tilefni boðið til viðburðar á skrifstofunum við Skógarhlíð og mun ferðaskrifstofan Feria starfa sem dótturfélag Icelandair.

VITA var stofnað árið 2009 og hefur síðan þá vaxið jafnt og þétt. Ákveðið var svo að stofna dótturfélag utan um þjónustuna undir nýju nafni. Breytingin er einnig svar við aukinni eftirspurn frá fyrirtækjum, stofnunum og félögum eftir aukinni þjónustu og áreiðanleika á ferðalögum.

Feria byggir á reyndu teymi sem hefur sérþekkingu í að aðstoða viðskiptavini og fyrirtæki við ferðaskipulagningu. Ferðaskrifstofan býr að hagkvæmum samningum við helstu flugfélög, hótel og bílaleigur til hagsbóta fyrir viðskiptavini.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Soffía Helgadóttir, sem hefur leitt viðskiptaferðir VITA frá upphafi mun veita Feria ferðaskrifstofu forstöðu.

„Frá árinu 2009 hefur fyrirtækjaþjónustan okkar vaxið og dafnað og er stofnun Feria því rökrétt skref til þess að halda áfram að veita fyrirtækjum, stofnunum og félögum á Íslandi framúrskarandi þjónustu. Við búum að frábæru og þrautreyndu teymi en sjáum mikil tækifæri í því að fókusera enn betur þjónustuleiðir og efla starfrænar lausnir, með það að markmiði að koma til móts við þarfir viðskiptavina á hagkvæman og þægilegan hátt,“ segir Soffía.