Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, hagnaðist um 1,7 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi fjárhagsárs félagsins, þ.e. frá 1. júní til 31. ágúst. Til samanburðar hagnaðist félagið um 2,1 milljarð á sama tímabili í fyrra.

Í uppgjörstilkynningu Haga segir að í samanburði milli ára þurfi að taka tillit til þess að afkoman á sama fjórðungi í fyrra hafi verið óvenju sterk í sögulegu samhengi.

„Afkoma stærstu eininga sem falla undir verslanir og vöruhús styrktist á milli fjórðunga en afkoma starfsþáttar Olís dróst hins vegar nokkuð saman,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

„Skýringin á samdrætti í afkomu Haga miðað við fyrra ár liggur því annars vegar í breytingum hjá Olís og hins vegar í hækkun fjármagnsgjalda. Hjá Olís er nauðsynlegt að horfa til samanburðar við sama fjórðung í fyrra, þegar selt magn og afkoma voru óvenju sterk, m.a. vegna hagfelldra hreyfinga í heimsmarkaðsverði olíu og stórra einskiptisverkefna.“

Aukning í Bónus en samdráttur hjá Hagkaup

Vörusala samstæðunnar á fjórðungnum jókst um 2,8% milli ára og nam 46,6 milljörðum króna. Framlegðarhlutfall Haga á fjórðungnum var 21,8% en til samanburðar var það 21,9% á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu Haga kemur fram að heimsóknum viðskiptavina fjölgi sem fyrr hjá Bónus en hjá Hagkaup hafi verið samdráttur í bæði seldum stykkjum og heimsóknum. Stórbruni í Kringlunni í byrjun sumars, lokanir verslana og fækkun gesta, höfðu neikvæð áhrif á matvöruverslanir Haga í verslunarmiðstöðinni.

„Einnig má gera ráð fyrir að háir stýrivextir og hækkandi greiðslubyrði fasteignalána séu farin að hafa áhrif í dagvöruverslun, sem sést m.a. á því að þó viðskiptavinum haldi áfram að fjölga og fjöldinn sé í sögulegu hámarki, þá fækkar stykkjum örlítið sem rata í hverja verslunarkörfu.“

Fram kemur að seldum stykkjum í dagvöruverslunum Haga á öðrum fjórðungi fækkaði um tæplega 1,0% frá sama tímabili í fyrra. Heimsóknum viðskiptavina fjölgaði hins vegar um 1,6% en sem fyrr segir var aukning í Bónus en samdráttur hjá Hagkaup.

„Á síðustu mánuðum og misserum hefur kauphegðun viðskiptavina þegar kemur að dagvöru breyst nokkuð, m.a. hliðrast yfir í ódýrari valkosti og færst framar í mánuði,“ segir Finnur.

„Hjá verslunum Haga, einkum Bónus, hefur sérstök áhersla hefur verið lögð á að hjálpa viðskiptavinum að versla ódýrt, m.a. með því að bjóða hagkvæmari staðkvæmdarvöru við dýrari vörumerki, auðvelda innkaup í réttu magni, fjölga tilboðum, o.fl. Í sama tilgangi hefur aðhald smásala og gott samstarf við helstu birgja stuðlað að lækkandi matarverðbólgu, sem á eftir að koma heimilum vel, samhliða vonandi áfram lækkandi vöxtum.“