Fréttamiðillinn BBC greinir frá því að viðskiptavinir kínverska snjallforritsins Temu gætu verið að ýta undir nauðungarvinnu með því að versla vörur í gegnum forritið. Viðvörunin kemur eftir rannsókn bandarískra stjórnvalda sem áætla að vörur frá Temu séu líklega framleiddar með þrælum.
Kínverska snjallforritið, sem hefur verið hlaðið niður 19 milljón sinnum í Bretlandi á þessu ári, er vinsælt fyrir mikið úrval af fatnaði, leikföngum og öðrum vörum sem eru á mjög lágu verði.
Alicia Kearns, yfirmaður utanríkismálanefndar bresku ríkisstjórnarinnar, segir að hún hafi lengi haft áhyggjur af Temu og grunsemdinni um þrælavinnu. Temu segist hins vegar banna alla notkun nauðungar- og refsivinnu eða barnaþrælkun.
Temu er í samstarfi við kínverska netverslunarfyrirtækið Pinduoduo og kom á markað í Bandaríkjunum árið 2022. Snjallforritið er fáanlegt á Íslandi en sendir þó ekki vörur til landsins.
Netverslunin notast við slagorðið „verslaðu eins og milljarðamæringur“ og gerir notendum kleift að versla beint frá kínverskum framleiðendum á lágu verði. Fyrirtækið segir að með því að bjóða upp á hagkvæmari valkosti fyrir hversdagslegan varning hafi það hjálpað fjölmörgum fjölskyldum við að draga úr framfærslukostnaði.
Fyrirtækið hefur einnig eytt gríðarlegum fjárhæðum í markaðssetningu, þar á meðal í gegnum áhrifavalda á netinu, auglýsingar á samfélagsmiðlum og keypti meðal annars 30 sekúndna auglýsingu á Ofurskálinni í ár en slíkar auglýsingar geta kostað allt að fimm milljónir dala.
Breska þingkonan er meðal þeirra sem segir að erfitt sé að forðast auglýsingar frá fyrirtækinu og vill sjá meira eftirlit til að tryggja að neytendur séu ekki að taka þátt í þjóðarmorði á Úígúrum í Kína.
Kínversk stjórnvöld hafa undanfarin ár verið sökuð um að handsama meira en milljón Úígúra í Xinjiang í norðvesturhluta Kína gegn vilja þeirra. Svæðið framleiðir um fimmtung af öllum bómull í heiminum og hafa mannréttindasamtök lýst yfir áhyggjum af því að mikið af þeim bómull sé tíndur af þrælum. Kínverjar hafa neitað öllum ásökunum um mannréttindabrot á svæðinu.
„Þegar þú skoðar hvaðan Temu fær vörur sínar og hvar vörurnar eru framleiddar, þá getur þú séð að þetta eru svæði þar sem við vitum að það er verið að notast við nauðungarvinnu frá Úígúrum. Beiðni mín til Temu væri að sýna okkur aðfangakeðjuna. Sýndu okkur að þið eruð ekki að notast við þrælavinnu,“ segir Kearns.