Hlutabréfaverð Play lækkaði um 16,8% í gær og hefur alls lækkað um 28,3% í vikunni. Gengi Play hefur fallið um tæp 2% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 0,76 krónum á hlut.
Klukkan 10:40 í dag fóru 10 milljóna króna viðskipti með 0,7% í flugfélaginu, eða 13.245.033 hluti, í gegn á genginu 0,755 krónur. Til samanburðar var dagslokagengi Play í gær 0,77 krónur og hefur aldrei verið lægra frá skráningu flugfélagsins í Kauphöllina sumarið 2021.
Play sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi vegna tilkynninga Kauphallarinnar á athugunarmerkingu flugfélagsins og fréttaumfjöllun um hana. Stjórn PLAY sagðist harma óskýrar tilkynningar og fréttaflutning um rekstrarhæfi félagsins.
„Óskýrar tilkynningar af þessu tagi og fréttaflutningur af þeim valda alvarlegum misskilningi sem veldur félaginu tjóni."
Play benti á að það hefði skilmerkilega greint frá ábendingu endurskoðanda í kynningu sinni á dögunum og í fréttatilkynningu fyrr í vikunni.