Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 29% í 88 milljóna króna veltu það sem af er degi er komið undir eina krónu. Gengi hlutabréfa félagsins stendur í 0,98 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.
Um ellefuleytið í dag fór í gegn 71,7 milljóna króna viðskipti á genginu 1,00 króna á hlut. Fjöldi hluta samsvarar 3,8% eignarhlut í flugfélaginu.
Miðað við 0,98 krónu hlutabréfagengi Play nemur markaðsvirði flugfélagsins 1,85 milljörðum króna.
Lækkað um helming frá því á miðvikudaginn
Hlutabréfaverð Play hefur nú lækkað um tæplega 49% frá því að Play greindi frá því eftir lokun Kauphallarinnar á miðvikudaginn að rekstrarafkoma félagsins verði líklega verri en á síðasta ári, samkvæmt uppfærðri afkomuáætlun, ólíkt því sem spáð hafði verið fyrir um.
Samhliða boðaði Play „grundvallarbreytingar“ á viðskiptalíkani félagsins frá og með miðju næsta ári en flugfélagið hyggst draga úr umsvifum tengiflugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu.
Þá hefði félagið hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu og reiknar Play með að flugrekstrarleyfið verði í höfn næsta vor.
Play lauk 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningu í vor þar sem útgáfuverðið var 4,6 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Play hefur lækkað um 78% síðan þá og alls lækkað um meira en 87% í ár.
Félagið sagðist í ofangreindri tilkynningu á miðvikudaginn ekki telja þörf á auknu fjármagni til rekstrarins á næstunni.