Guðni Rafn Eiríksson hefur fært 5,03% eignarhlut sinn í Skel fjárfestingarfélagi úr eignarhaldsfélagi sínu GE Capital í RES 9 og eignast við það 31,45% hlut í síðarnefnda félaginu. GE Capital átti 10,0% hlut í RES 9 í byrjun ársins.

Guðna Rafni, eiganda Skakkaturns sem rekur verslanir Eplis, er greitt fyrir eignarhlut sinn í Skel með hlutum í RES 9. Viðskiptin í dag hljóða upp á rúma 1,6 milljarða króna en kaupverðið miðaði við gengið 16,2 krónur á hlut í Skel.

Í flöggunartilkynningu segir að RES II, sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur, fari þó eftir sem áður með meirihluta hlutafjár í RES 9.

RES 9, sem eignast nú 5,03% beinan hlut í Skel, á einnig 38% eignarhlut í Strengi, sem fer með 50,06% eignarhlut í Skel. RES 9 á því samtals 24% óbeinan hlut í Skel fjárfestingarfélagi.

Á síðustu tveimur mánuðum hefur einnig verið tilkynnt um fjögur kaup RES 9 á hlutum í fasteignafélaginu Kaldalóni. RES 9 á nú 4,8% beinan hlut í Kaldalóni. Gunnar Henrik Gunnarsson, hluthafi í RES 9, situr í stjórn Kaldalóns.

Eignarhlutur RES 9 í Skel, beinn og óbeinn, er nú 7,7 milljarðar króna að markaðsvirði. 4,7% eignarhlutur RES 9 í Kaldalóni er ríflega 840 milljónir króna að markaðsvirði.