Við opnun markaða í morgun var tilkynnt um viðskipti með 22,5 milljón hluti í Sýn á genginu 22,4 krónur sem samsvarar um 504 milljónum króna. Samsvarar það um 9% hlut í félaginu.
Hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 3,6% í örviðskiptum í kjölfarið og stendur gengið í 23 krónum á hlut þegar þetta er skrifað.
Rekstur Sýnar hefur verið nokkuð þungur undanfarið og fyrir vikið hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 28,5% á árinu og 45,5% síðastliðið ár.
Í lok síðasta árs nam markaðsvirði Sýnar tæplega 8 milljörðum króna en markaðsvirði félagsins miðað við daglokagengi í gær var tæplega 5,5 milljarðar.
Í lok febrúar, þegar verst lét og gengið fór niður í 21,4 krónur, nam bókfært tap stærsta hluthafa félagsins um hálfum milljarði á árinu.
Samkvæmt Snorra Jakobssyni, eiganda Jakobsson Capital, gefur það augaleið að markaðsvirði upp á rúmlega fimm milljarða króna sé lágt fyrir félag eins og Sýn.
Félagið hafi aftur á móti verið rekið með tapi í fyrra, sem sé óheppilegt í ljósi þess hve miklar leiguskuldbindingar hvíla á félaginu með tilheyrandi vaxtagreiðslum.
„Meðan reksturinn skilar ekki hagnaði segir sig sjálft að hann sé minna virði en ella. Það er algjört lykilatriði fyrir rekstur Sýnar, sem og allra annarra félaga, að afkoman sé réttu megin við núllið. Ef rekstur félagsins gengur nokkuð vel er eðlilegt að gengi bréfanna sé í kringum 60 krónur á hlut. Að sama skapi er ekkert óeðlilegt að gengið sé lágt meðan tap er af rekstrinum,“ sagði Snorri í samtali við Viðskiptablaðið í lok febrúar.
Afkomuspár stjórnenda Sýnar hafa reynst afar bjartsýnar undanfarin tvö rekstrarár en félagið sendi frá þrjár afkomuviðvaranir í fyrra.
Rekstrarspá stjórnenda fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir að EBIT verði á bilinu 800-1.200 milljónir króna.
Spáin tekur ekki tillit til mögulegrar lækkunar kostnaðar við rekstur fjarskiptainnviða í gegnum víðtækara samstarf á vettvangi Sendafélagsins.
Jafnframt er gert ráð fyrir að viðskiptavinum fjölgi umtalsvert á þessu ári en af orðum Herdísar Drafnar Fjeldsted, forstjóra Sýnar, í uppgjörstilkynningu ársins 2024 er ljóst að miklar vonir eru bundnar við endurkomu enska boltans í því samhengi.