Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn hefur leitt hækkanir á undanförnum árum og hafa hlutabréfavísitölur vestanhafs skilað mun betri ávöxtun samanborið við evrópskar vísitölur.

Þá hafa evrópsk bréf sögulega séð verið ódýrari en bandarísk, m.a. vegna þess að tæknigeirinn vegur mun þyngra í bandarískum vísitölum.

Hins vegar hefur verðþróunin farið í aðrar áttir á síðustu mánuðum. S&P 500 hefur lækkað um 1,6% frá áramótum og Nasdaq Composite um 5,1%.

Til samanburðar hefur STOXX Europe 600 vísitalan hækkað um 8,2% frá áramótum, þýska DAX vísitalan um 15,4%, franska CAC 40 um 9,7% og breska FTSE 100 um 4,9%.

Þegar litið er til sl. sex mánaða hefur S&P 500 hækkað um 0,95% og Nasdaq Composite um 1,05%. Á sama tímabili hefur STOXX Europe 600 hækkað um 6,45%, DAX um 22,15%, CAC 40 um 7,2% og FTSE 100 um 4,8%.

Markaðsaðilar sem Viðskiptablaðið ræddi við segja marga samverkandi þætti skýra þessa þróun.

„Bandarískar vísitölur voru orðnar dýrar. VH hlutfall (e. Price/Earnings Ratio) S&P 500 vísitölunnar var að nálgast 28, sem er hæsta verðlagning seinni tíma að undanskildu Covid tímabilinu. Á sama tíma var VH hlutfall evrópskra vísitalna á bilinu 14-15,“ segir Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Eignastýringu Íslandssjóða.

Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Eignastýringu Íslandssjóða.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann bætir við að þegar stærstu félögin í S&P 500 eru undanskilin hafi vísitalan fylgt svipuðum takti og evrópskir markaðir.

„Ofurhækkanir „Magnificent 7“ félaganna svokölluðu skekkti myndina. Hækkanirnar áttu að einhverju leyti rétt á sér, enda eru félögin leiðandi í gervigreind, með sterkt sjóðstreymi og tekjuvöxt.“

„En eins og gerist oft og tíðum fór markaðurinn fram úr sér í verðlagningu. Nvidia er eitt dæmi – sveiflurnar þar hafa verið miklar og félagið var hátt verðlagt líkt og að engin óvissa væri framundan. Félagið er þó vel staðsett í gervigreindarkapphlaupinu,“ bætir Vignir við.

Hann bendir á að þegar óvissa skapast á markaði og leiðréttingar eiga sér stað séu það oft stærstu fyrirtækin sem lækka mest, sem í þessu tilfelli eru tæknirisarnir sjö.

Þar að auki hafi samkeppni í þróun gervigreindar aukist að undanförnu með innkomu kínverskra fyrirtækja eins og DeepSeek, sem ógni yfirburðastöðu bandarísku tæknirisanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.