Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um rúm 3% í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi líftæknilyfjafélagsins var 1720 krónur eftir um 406 milljón króna veltu í dag.
Gengi Alvotech tók við sér eftir uppgjör annars ársfjórðungs en félagið skilaði jákvæðri EBITDA-framlegð í fyrsta sinn á fjórðungnum. Heildartekjur námu 236 milljónum dollara, eða um 32,8 milljörðum króna, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra.
Aðlöguð EBITDA-framlegð Alvotech nam 64 milljónum dollara, eða um 8,9 milljörðum króna, á fyrri árshelmingi. Í kjölfarið hækkaði gengi Alvotech um næstum 18% á einni viðskiptaviku en viðsnúningur varð á þeirri þróun í dag.
Í dag var greint frá því að breska sjóðastýringarfélagið Redwheel hafi keypt í Alvotech fyrir um tvo milljarða í utanþingsviðskiptum á genginu 1670 krónur.
Samkvæmt Innherja eiga fjárfestingarsjóðirnir Redwheel Next Generation Emerging Markets Equity Fund, Al Mehwar Commercial Investments, SEI Institutional Investments og Redwheel Frontier Markets Equity Fund nú með samanlagt 1.275 milljónir hluta að nafnvirði í Alvotech.
Markaðsvirði þess hlutar jafngildir um 0,4% eignarhlut í félaginu og er markaðsvirði þess um 2,2 milljarðar króna m.v. gengi dagsins.
Hlutabréfaverð Eimskips lækkaði um rúm 2% í um 100 milljón króna viðskiptum í dag en félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Hagnaður eftir skatta hjá Eimskip nam 8,4 milljónum evra á fyrri helmingi árs sem er lækkun frá 29,5 milljónum á sama tímabili í fyrra. Mun það vera um 71,5% lækkun á milli ára.
Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri sagðist þó vera bjartsýnn á betri afkomu á þriðja ársfjórðungi með auknu útflutningsmagni frá Íslandi í kjölfar nýs fiskveiðiárs í september.
Hlutabréfaverð Heima leiddi hækkanir annan daginn í röð en gengi fasteignafélagsins hefur nú hækkað um 15% síðastliðinn mánuð. Gengið fór upp um rúmt 1% í 71 milljónar króna viðskiptum í dag.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,24% í viðskiptum dagsins og var heildarvelta á markaði 3,3 milljarðar.