Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi félagsins fór upp um 5,5% í tæplega 60 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi Sýnar var 22,8 krónur og er enn sögulega mjög lágt en gengið fór í sitt lægsta gildi frá skráningu í gær.
Sýn mun birta árshlutauppgjör eftir lokun markaða á fimmtudaginn en félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun í byrjun mánaðar.
Sýn gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins (EBIT) fyrir árið 2024 verði um 700 milljónir króna, sem er verulega undir áður útgefnum spám.
Sala auglýsinga reyndist mun minni en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum.
Tekjur af auglýsingasölu voru 258 milljónum króna undir væntingum á síðustu tveimur fjórðungum ársins, þar af nam tekjuskerðingin 157 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi.
Gengi Eimskips leiddi lækkanir á aðalmarkaði en hlutabréfaverð gámaflutningafélagsins fór niður um 2,5% í 122 milljón króna veltu.
Hlutabréfaverð félagsins hefur verið á miklu skriði undanfarið og hefur gengið hækkað um 22% á árinu þrátt fyrir lækkun dagsins.
Hlutabréfaverð Arion banka og Íslandsbanka lækkaði lítillega í viðskiptum dagsins er gengi beggja banka niður um 1%.
Annan daginn í röð var töluverð velta með gengi bankanna í Kauphöllinni en samanlögð velta Arion, Kviku og Íslandsbanka var um 1,9 milljarðar. Úrvalsvísitala OMXI15 lækkaði um 0,52% og var heildarvelta á markaði 3,6 milljarðar.