Flugfélagið Ernir hagnaðist um 134 milljónir króna á síðasta ári. Til samanburðar tapaði félagið 302 milljónum árið áður. Á árunum 2017-2020 nam uppsafnað tap flugfélagsins 554 milljónum króna.
Rekstrartekjur félagsins námu 807 milljónum króna en árið áður námu tekjurnar 829 milljónum króna. Rekstrargjöld drógust að sama skapi lítillega saman á milli ára, úr 964 milljónum í 902 milljónir. Laun og launatengd gjöld námu hálfum milljarði króna á síðasta ári og nam fjöldi ársverka 46 stöðugildum.
Eignir félagsins námu 1,2 milljörðum króna í lok árs 2021, skuldir 1,36 milljörðum og var eigið fé neikvætt um 156 milljónir króna.
Í skýrslu stjórnar er sagt frá því að á árinu 2021 hafi flugfélagið lokið við endurfjármögnun á skuldum við helstu lánastofnun félagsins auk leiðréttingar á skuldum sem leiddi til 300 milljón króna tekjufærslu í rekstrarreikningi ársins 2021. Þá var samið um að ef greidd yrði tiltekin fjárhæð í október 2022 myndu skuldir félagsins að hluta vera gefnar eftir.
Þá kemur fram að áhrif Covid-19 hafi verið félaginu þung síðustu tvö ár. Félagið hafi gripið til ýmissa aðgerða á árunum 2020 og 2021 til að bæta reksturinn og lækka skuldsetningu. Meðal aðgerða sem gripið var til var markviss sala eigna samhliða niðurgreiðslu lána, tekjugrunnur félagsins styrktur meðal annars með því að endursemja við ríkissjóð, dregið var úr óhagkvæmu áætlunarflugi og hagrætt á tilteknum flugleiðum auk þess að nýta sér ýmis úrræði stjórnvalda svo sem greiðslufresti opinberra gjalda.
Í skýrslu stjórnar kemur einnig fram að rekstur félagsins á árinu 2021 hafi gengið vel og er áætluð EBITDA ársins 2022 um 110 milljónir króna. Þá muni eigið fé hækka verulega og verða jákvætt svo lengi sem tiltekin fjárhæð verði greidd viðkomandi lánastofnun.
„Að mati stjórnar og framkvæmdastjóra hefur félagið með framangreindum aðgerðum styrkt rekstur félagsins fjárhagslega og eru verulegar líkur taldar á því að endurfjármögnun skulda við lánastofnun frá nýjum lánveitum og/eða hluthafa gangi upp. Endurfjármögnun þessara lána með nýju fjármagni mun hafa þau áhrif að eigið fé félagsins mun hækka um 564,8 milljónir króna.“
Á fyrrnefndum grundvelli telja stjórn og stjórnendur félagsins að það muni verða rekstrarhæft í fyrirsjáanlegri framtíð.
Flugfélagið er í meirihlutaeigu framkvæmdastjórans Harðar Guðmundssonar og eiginkonu hans, Jónínu Guðmundsdóttur. Asia Cargo Leasing á 25% hlut.