Hugbúnaðarfyrirtækið Mentor ehf. hagnaðist um 72 milljónir króna í fyrra, eftir að hafa tapað 269 milljónum króna árið áður. Rekstrartekjur námu 333 milljónum króna og jukust um 27% frá fyrra ári.
Eignir námu 26 milljónum króna í lok síðasta árs en námu ríflega einum milljarði króna árið áður. Þessi munur skýrist á því að í fyrra seldi Mentor þrjú dótturfélög og öll hugverkaréttindi í eigu félagsins sem tengjast hugbúnaðarkerfunum Infomentor og Karellen. Eftir söluna greiddi félagið upp allar skuldir sínar. Í ársreikningi félagsins undir liðnum sala á dóttur- og samrekstrarfélögum kemur fram að 665 milljónir króna hafi runnið til félagsins við söluna. Í mars í fyrra var greint frá því að sænska fyrirtækið Nordtech Group AB hefði keypt InfoMentor.
Eigið fé Mentors nam 5 milljónum króna í lok síðasta árs, eftir að hafa verið neikvætt um 65 milljónir ári áður. Eyrir Sprotar er stærsti hluthafi Mentors með tæplega 30% hlut og Eyrir Ventures næst stærsti með 15% hlut.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.