Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2025 liggur nú fyrir auk þriggja ára áætlunar. Hún sýnir viðsnúning í grunnrekstri bæjarins, en fyrri umræða um áætlunina fór fram í gær á bæjarstjórnarfundi.
Samkvæmt fjárhagsáætlun verður rekstrarafgangur af bæði A-hluta og samstæðunni, um tæpar ellefu milljónir króna á A-hluta og 154 milljónir á afkomu samstæðunnar.
Til samanburðar var A-hluti rekinn með 867 milljóna króna halla á árinu 2023 og samstæðan með 798 milljóna halla. Þá gerði fjárhagsáætlun ársins 2024 ráð fyrir 72 milljóna króna afgangi á A-hluta bæjarsjóðs en 23 milljóna króna halla á afkomu samstæðunnar, A- og B-hluta.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 reiknar með aðhaldskröfu á öllum sviðum, en þá munar einnig miklu um að þungar gjaldfærslur vegna myglu í Grunnskóla Seltjarnarness heyra brátt sögunni til.
Gert er ráð fyrir að skatttekjur aukist um 10% og framlög Jöfnunarsjóðs styrkist um ríflega 290 milljónir króna. Álagning skatta helst óbreytt milli ára, en skatttekjur á íbúa eru hvað hæstar á landsvísu á Seltjarnarnesi. Gjaldskrár bæjarfélagsins hækka flestar um 6% með frávikum.
Fjárhagsáætlunin reiknar með veltufé frá rekstri samstæðu upp á 764 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er lykiltala í rekstri bæjarfélaga og segir til um fjárfestingargetu bæjarfélagsins og getu til að standa undir lánum.
Til samanburðar nam veltufé samstæðunnar 211 milljónum króna árið 2023 og í fjárhagsáætlun ársins 2024 var reiknað með veltufé í rekstri upp á 603 milljónir króna.
Mestu munar um sölu á Safnatröð 1
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri segir miklu muna um sölu á fasteign sem hýsir Hjúkrunarheimilið Seltjörn við Safnatröð 1. Grunnreksturinn muni styrkjast enn frekar á næstu misserum í takt við batnandi efnahagsumhverfi.
„Eignir hafa verið seldar. Munar þar mestu um fasteignina að Safnatröð 1 sem hýsir Hjúkrunarheimilið Seltjörn. Áfram er markvisst leitað allra leiða til hagræðingar og til að styrkja efnahag, t.d. með skoðun hugmynda á þróunarreitum í eigu bæjarins.
Með lækkandi verðbólgu- og vaxtastigi gerum við ráð fyrir að grunnreksturinn styrkist enn frekar enda hefur verðbólga leikið sveitarfélög grátt á síðustu misserum.“
Haft er eftir Þór að engin lán hafi verið tekin á árinu 2024 og voru íþyngjandi skammtímaskuldir greiddar upp.
„Skuldahlutfall er 108% og fer hratt lækkandi næstu ár. Skuldaviðmið, hvar búið er að draga frá skuldbindingar, verður 88% í lok ársins. Það má hæst vera 150%. Lýsir það afar sterkri fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Við höfum á sama tíma stóraukið fjármálastjórn og áætlanagerð og eftirfylgni og aðhald.“
Þór bætir við að rekstur Veitna bæjarins hafi tekið stakkaskiptum að undanförnu. Þær séu nú sjálfstæðari og betur tækjum búnar samanborið við fyrri ár.
„Nýleg borhola Hitaveitu Seltjarnarness hefur reynst afar vel og styrkt okkar góða fyrirtæki til lengri tíma. Vinnsluborholur eru nú sex talsins og er Seltjarnarnesbær því alveg sjálfbær með heitt vatn.“
Kostnaðarsamar mygluframkvæmdir
Seltjarnarnesbær hefur á undanförnu ári staðið í afar kostnaðarsömum stórframkvæmdum við viðgerðir skólahúsa sökum myglu.
Nú sé svo að neyðarviðgerðum húsanna er að mestu lokið en þó séu stór verkefni eftir svo sem klæðning utanhúss á Valhúsaskóla og þakviðgerð Mýrarhúsaskóla. Þeim framkvæmdum megi áfangaskipta.
„Það er full ástæða að þakka nemendum, foreldrum og starfsfólki þessara stofnana fyrir jákvætt og gott samstarf. Ég er verulega stoltur af því hversu vel þetta mikla og snúna verkefni hefur gengið á því rúma ári sem viðgerðir hafa staðið yfir samhliða kennslu í báðum skólunum.
Fram undan er bygging leikskóla og verður fyllsta aðhalds gætt við það stóra verkefni sem mun fara af stað í ársbyrjun 2025. Fjárhagsáætlun ársins 2025 sýnir svo sannarlega ábyrgð, elju og árangur okkar í að ná tökum á grunnrekstri bæjarins og sýnir það og sannar að Sjálfstæðismenn hafa haldið vel í taumana á rekstri bæjarfélagsins hér eftir sem hingað til,“ segir bæjarstjórinn að lokum.