Verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar kynnti í samráðsgátt stjórnvalda skömmu fyrir áramót drög að flokkun tíu vindorkukosta, þar sem lagt var til að allir kostirnir yrðu settir í biðflokk, þar af tveir kostir sem höfðu áður verið settir í nýtingarflokk.

Alls bárust 122 umsagnir og voru langflestar þeirra frá einstaklingum og sveitarfélögum á svæðunum sem um ræðir auk félaga flug- og veiðimanna, meðal annars. Í þeim umsögnum kom aðallega fram andstaða við uppbyggingu vindorku en einnig voru umsagnir á þá leið að kynna þyrfti vindorkukostina betur fyrir íbúum og sveitarstjórnarmönnum.

Þá skiluðu öll félögin sem standa fyrir virkjunarkostunum sem um ræðir - að einu undanskildu - inn umsögn og bentu á alvarlega vankanta í vinnu verkefnisstjórnarinnar, þar sem takmarkað tillit hafi verið tekið til fyrirliggjandi gagna og rannsókna sem fyrirtækin hafa sjálf framkvæmt.

Umsögn Qair Iceland, sem stendur fyrir verkefnunum Sólheimum og Hnotasteini, er hvað ítarlegust en hún er í heild 49 blaðsíður. Félagið segir það vekja undrun að ekkert hafi verið horft til kosta vindorkunnar þegar kemur að hagkvæmni, sveigjanleika og afturkræfni. Þá séu drögin verulegum annmörkum háð, bæði almennt og þegar kemur að einstökum virkjanakostum.

Félagið hefur nú sent formlegt erindi til Umhverfisstofnunar og verkefnisstjórnar rammaáætlunar þar kemur fram að umfjöllun og málsmeðferð í drögum verkefnisstjórnar og umfjöllun faghópa hafi ekki verið í samræmi við þær skyldur sem á verkefnisstjórn hvíla.

„Annmarkar þeir, sem eru á umfjöllun verkefnisstjórnar um fyrirhuguð vindorkuverkefni félagsins, sem raktir eru í umræddri umsögn, eru svo víðtækir og alvarlegir, að félagið telur óhjákvæmilegt með bréfi þessu að árétta lagalega afstöðu sína vegna málsins,“ segir í erindinu sem Lögfræðistofa Reykjavíkur sendi fyrir hönd Qair.

Farið er fram á að öll fyrirliggjandi gögn verkefnisstjórnar verði birt með tilvísun til til upplýsingalaga. Þá er skorað á verkefnisstjórn að tryggja að áframhaldandi umfjöllun uppfylli faglegar kröfur og grunnreglur laga um vandaða stjórnsýsluhætti.

„Félagið áskilur sér allan rétt, þ.á.m. að nýta sér viðeigandi réttarúrræði sem lög heimila að þessu tilefni,“ segir að lokum í erindinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.