Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá stefnu Samskipa gegn stjórnarformanni og forstjóra Eimskips þar sem stefnt var til viðurkenningar á bótaskyldu án fjárhæðar vegna meintra ólögmætra og saknæmra athafna í tengslum við sátt sem Eimskip gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2021.
Samskip stefndi forsvarsmönnum Eimskips m.a. fyrir rangar sakagiftir er þeir gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2021 og viðurkenndu að hafa átt í meintu samráði við Samskip.
Eimskip greiddi 1,5 milljarða króna stjórnvaldssekt en Samkeppniseftirlitið sektaði Samskip um 4,2 milljarða í kjölfarið sem er hæsta stjórnvaldssekt Íslandssögunnar.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mat héraðsdómur svo að ekki væri tímabært að taka málið fyrir að svo stöddu.
Kærunefnd áfrýjunarnefndar féllst á það í janúar að fresta réttaráhrifum sektarinnar á Samskip á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefndinni. Samskip kærði stjórnvaldssekt SKE til kærunefndarinnar í fyrra.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun samþykkti Hæstiréttur að taka fyrir kröfu Samskipa um að tiltekin atriði í sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið verði felld úr gildi.