Eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lagði háa tolla á kínverskar vörur árið 2018, leituðu fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki að nýjum framleiðslulöndum til að lækka viðskiptakostnað sinn. Það gæti snúist við nú eftir að Trump fór í tollastríð við hálfan heiminn.
Víetnam reyndist einn stærsti sigurvegari breytinganna 2018, enda landið þegar í vexti sem lykilaðili í alþjóðlegum framleiðslu- og viðskiptakeðjum.
Áhrif tollanna urðu mikil strax á fyrstu árum eftir að þeir voru lagðir á. Fjöldi stórfyrirtækja, þar á meðal Apple, Samsung og Nike, fluttu hluta af framleiðslu sinni frá Kína til Víetnam.
Landið naut góðs af lágum framleiðslukostnaði, hagstæðum viðskiptasamningum og sífellt bættum innviðum.
Mikill uppgangur í Haiphong
Mikill uppgangur hefur verið í Haiphong og höfnin þar er orðið ein mikilvægasta flutningamiðstöð landsins. Útflutningur í gegnum höfnina nemur um 26 milljörðum Bandaríkjadala á ári.
Haiphong, sem er stærsta hafnarborg norðurhluta Víetnam og þriðja stærsta höfn landsins, hefur upplifað gífurlegan vöxt í vöruflutningum frá 2018.
Höfnin hefur verið stækkuð og nútímavædd með betri flutningaaðstöðu, stærri gámahöfnum og nýjum siglingaleiðum sem tengja hana betur við helstu alþjóðlegu markaði.
Víetnam hefur þannig styrkt stöðu sína sem lykilframleiðsluland í Asíu, með Haiphong sem einni helstu útflutningshafnar landsins.
Þessi þróun hefur ekki aðeins leitt til aukinna erlendra fjárfestinga heldur einnig skapað þúsundir nýrra starfa og stuðlað að áframhaldandi hagvexti landsins.