Þráinn Vigfússon, eigandi Ameríkuferða, opnaði nýju ferðaskrifstofuna á dögunum og fór vefsíða fyrirtækisins í loftið nú fyrir helgi. Þráinn hefur töluverða reynslu í ferðaþjónustu en hann var síðast framkvæmdastjóri hjá VITA þar sem hann vann í tólf ár.

Hann hefur einnig unnið hjá Kynnisferðum, Iceland Travel og Icelandair og segist lengi hafa viljað bjóða upp á eitthvað nýtt og fannst vanta meira þegar kom að ferðum til Bandaríkjanna.

„Mig langaði að bjóða upp á eitthvað annað en Spán og Tene enda eru svo margir sem þekkja þær ferðir. Hef lítið við það að bæta.“

Þráinn segir að margir vilji ferðast til Bandaríkjanna en bókunarferlið geti reynst mörgum mjög flókið og þar að auki séu mörg hótel sem vinna einungis með ferðaskrifstofum.

„Það eru til dæmis hótel þarna í þjóðgörðunum sem stunda bara viðskipti við ferðaskrifstofur og bjóða ekki upp á einstaklingsbókanir. Bara eins og hérna á Íslandi, þú færð enga gistingu á Suðurlandi í júlí. Þetta er bara sama dæmið.“

Ameríkuferðir bjóða upp á ýmsar ferðir víða um Bandaríkin og má þar nefna Þjóðveg 66, Flórída, stórborgir á austur- og vesturströndinni og suðurríkin.

„Ég er til dæmis með bílaleiguferð sem byrjar í Orlando. Þaðan keyrir fólk upp til New Orleans, svo til Nashville og Graceland og keyrir svo niður ströndina Atlantshafsmegin að Daytona Beach og Kennedy Space Center.“

Þráinn er sjálfur mest hrifinn af Miklagljúfri en hann hefur meðal annars séð það úr þyrlu og segir þá upplifun ógleymanlega. Hann segir bandaríska þjóðgarða vera mikil náttúruundur og býður fólki að ferðast þangað bæði í rútu eða með bílaleigubíl.

„Ég sé það fyrir mér að fólk vilji prufa að gefa Tene smá frí og fara til Ameríku í viku. Við erum með flug á föstudögum og svo kemur fólk heim aðfaranótt laugardags vikuna á eftir. Það er þá bara ein vinnuvika og svo ef það er frí í skólanum þá er þetta tilvalið fyrir bæði pör og fjölskyldur,“ segir Þráinn.