Listakona, sem varð fyrir því óláni að vatn flæddi inn í íbúð hennar, á ekki rétt á frekari bótum úr ábyrgðartryggingu sinni en hún hafði þegar fengið greiddar. Konan taldi að vátryggingafélaginu bæri að bæta henni óseld listaverk sín en ekki var fallist á það hjá úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
Í málinu var ekki deilt um það að vátryggingafélagið væri bótaskylt vegna atburðarins og hafði það þegar greitt henni bætur vegna tjóns á innbúsmunum. Konan taldi aftur á móti að henni bæri hærri greiðsla vegna rúmdýnu sinnar, sem hún fékk 90 þúsund krónur fyrir, og 6.250 þúsund krónur vegna listaverka sem hún hafði ekki selt.
Í málskoti konunnar segir að hún hafi starfað sem myndlistarmaður í um 35 ár og því átt mörg verk, sem hún geymdi í lokaðri skúffu fyrir neðan rúm sitt, sem hún átti eftir að selja. Kröfu sinni til stuðnings vísaði hún í söluverðmætis annara verka sinna. Eftir tjónatburðinn hreinsaði hún til í íbúðinni og enduðu verkin í svörtum ruslapokum enda ónýt.
Vátryggingafélagið byggði á því að ómögulegt hefði verið fyrir það að sannreyna verðmæti verkanna þar sem þeim hefði verið fargað. Tjónaskoðunarmaður hefði leiðbeint konunni um að eyða þeim ekki svo að unnt væri að meta þau til verðs. Hvað rúmdýnuna varðar þá benti félagið á að dýnan væri um tíu ára gömul og því hefði það reiknað með um 70% afskriftum á virði hennar.
„Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að [listakonan] hafi orðið fyrir nokkru tjóni á innbúi sínu vegna þess að vatn streymdi um hana. Þegar mat á slíku tjóni er framkvæmt er mikilvægt að sá sem greiða á bætur hafi tækifæri til þess að meta það sem hefur orðið fyrir tjóni til fjár. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða muni sem ekki eru þess eðlis að hægt sé að endurnýja þá með öðrum eins hlutum,“ segir í úrskurðinum.
Listaverk væru dæmigerð fyrir slíka óendurnýjanlega muni. Af þeim sökum hefði verið brýnt, þótt það hefði haft óþægindi í för með sér, fyrir konuna að geyma verkin svo unnt væri að láta félagið eða óháðan aðila verðmeta þau. Þar sem það var ekki gert lá umfang tjónsins ekki fyrir og því ekki hægt að bæta það frekar. Hvað rúmdýnuna varðaði lá heldur ekki fyrir sérstakt mat á virði hennar og ákvörðun félagsins því staðfest.