Tölvuleikjaframleiðandinn Rockstar Games ákvað á dögunum að fresta útgáfu Grand Theft Auto 6 um meira en hálft ár. Til stóð að leikurinn kæmi út í haust og hefur eftirvæntingin verið mikil en tólf ár eru liðin frá því að síðasti leikurinn, GTA 5, var gefinn út.
Aðdáendur fengu hins vegar nýja stiklu sem birt var skömmu eftir að tilkynnt var um tafir leiksins og á innan við sólarhring voru áhorfstölur stiklunnar komnar upp í 475 milljónir.
Ólafur Jóels, þáttarstjórnandi Game Tíví, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi ekki komið honum á óvart að Rockstar hafi ákveðið að fresta leiknum. Leikirnir GTA 5 og Red Dead Redemption II hafi til að mynda báðir verið frestaðir þegar þeir komu út á sínum tíma.
„Þetta er bara orðið eitthvað sem þeir eru þekktir fyrir og þegar nær dregur þá getur vel verið að þeir fresti leiknum aftur inn í haustið,“ segir Óli en núverandi útgáfudagur er 26. maí 2026.
Að hans mati ákváðu framleiðendur að fresta leiknum einfaldlega vegna þess að þeir voru ekki tilbúnir með hann. Hann segir líka að nafn fyrirtækisins passi vel þar sem Rockstar eru álitnir vera rokkstjörnur bæði innan iðnaðarins og innan móðurfélags þess, Take-Two Interactive.
„Þetta er náttúrulega risastórt verkefni sem hefur verið í framleiðslu í tíu ár og ég held að þeir hafi litið svo á að nokkrir mánuðir til viðbótar væru þess virði. Þeir vilja heldur ekki sogast inn í þessa þróun sem margir framleiðendur lenda í og gefa út hálfkláraðan leik.“
Viðkvæmt vistkerfi
Óli segir að frestunin hafi engu að síður haft mikil áhrif á markaðinn. Ákvörðunin hafi vissulega verið leiðinleg fyrir aðdáendur en fyrir suma er GTA eini leikurinn sem þeir spila, sem þýðir að viðeigandi fyrirtæki reiði sig mikið á útgáfudag.
„Þetta er náttúrulega agalegt fyrir markaðinn í heild sinni því nú eru leikjatölvurnar komnar á þann stað að þær eru farnar að flytjast aðeins út. PlayStation 5 er núna orðin fimm ára gömul og það er örugglega langt næstu útgáfu, þannig Sony hefði fengið gott spark ef GTA 6 hefði komið út núna.“
Hlutabréf í Take-Two lækkuðu einnig um 12% eftir tilkynninguna. Óli segir að forstjóri fyrirtækisins hafi engu að síður sagst standa á bak við ákvörðun Rockstar, enda sé búist við þremur milljörðum dala í tekjur fyrsta árið eftir útgáfu leiksins.
„Ég held samt að margir aðrir framleiðendur séu fegnir að það sé allavega kominn útgáfudagur. Það sem gerist nefnilega í leikjabransanum, þegar svona skrímsli eru gefin út, er að það vill enginn annar gefa út leik á sama tíma því þessi leikur mun taka allt súrefnið á markaðnum.“
Óli býst þó við góðum leik þegar GTA 6 verður loksins gefinn út og minnir á að Rockstar séu sem betur fer þekktir fyrir góð gæði. Þá séu einnig aðrir leikir sem hægt er að spila í millitíðinni á meðan verið er að bíða eftir GTA.
„Take-Two er til dæmis að fara að gefa út nýjan mafíuleik í ágúst, Mafia: The Old Country. Hann gerist á Sikiley í kringum 1900 og er líka svona open-world glæpaleikur. Það mun væntanlega létta lundina þar til stóra skrímslið kemur.“