„Ég varð var við það að þessi erlendu veðmálafyrirtæki vildu vera sterkir stuðningsaðilar. Ég hef sagt það áður að ég fékk stórt samningsboð frá fyrirtæki sem var mjög áhugasamt um að kaupa nafnið á heimavelli Vals. Við ákváðum þó að fara ekki í þá vegferð,“ segir Jóhann Már Helgason, sérfræðingur um fjármál í knattspyrnu.
Jóhann starfaði sem framkvæmdastjóri knattspyrnuliðanna Vals og Aftureldingu í sex ár. Hann segir að fyrirtækin vilji verja miklu fjármagni í forvarnir. Hann bendir á að stór hluti markaðsefnis erlendu veðmálafyrirtækjanna fari í forvarnir. Slagorð eins og „Bet responsibly“ og „When the fun stops, then stop“ séu dæmi um markaðsefni slíkra fyrirtækja. Á sama tíma hafi Lengjan markaðssett sig undir slagorðunum „Gerðu leikinn spennandi“ og “Settu spennu í leikinn“
Jóhann segir hrópandi ósamræmi ríkja í þessum málum á Íslandi. „Íslendingar veðja á íslenska leiki hjá erlendum veðmálafyrirtækjum. Allur markaðurinn er því hér á sama tíma og fyrirtækin skilja ekkert eftir sig hér, jafnvel þótt þau vilji það. Mér finnst íþróttaliðin sitja eftir þarna.“ Hann segir það þó spurningu hversu langt eigi að ganga þegar kemur að því að leyfa auglýsingar veðmálafyrirtækja. „Ég myndi til dæmis ekki vilja fá bet365 framan á treyju hjá börnum á N1-mótinu. Hins vegar fyndist mér í lagi að leyfa auglýsingar erlendra veðmálafyrirtækja á meistaraflokksstigi. Þá væri hægt að byrja á nokkrum auglýsingaskiltum á völlunum, svipað og Lengjan gerir í dag.“
Fótbolti á Íslandi er spilaður að mestu leyti á sumrin, en flestar fótboltadeildir í Evrópu eru í gangi á veturna og eru í fríi á sumrin. Því eru fáir leikir að jafnaði í gangi þegar íslensku leikirnir eru spilaðir, sem skapar sérstöðu hjá íslensku deildunum. Til marks um þetta seldi Íslenskur Toppfótbolti, hagsmunasamtök félaga í tveimur efstu deildum karla og kvenna, útsendingarréttindin á leikjum Bestu deildarinnar til hugbúnaðarfyrirtækisins Genius Sports, sem meðal annars selur útsendingar til erlendra veðmálafyrirtækja sem sýna leikina á vefsíðum sínum.
Banna auglýsingar á treyjum
Í þeim löndum þar sem auglýsingar veðmálafyrirtækja eru löglegar eru fyrirtækin oft stærstu bakhjarlar fótboltaliðanna. Í ensku úrvalsdeildinni er tæpur helmingur félaga með veðmálafyrirtæki sem aðalstyrktaraðila. Hlutfallið er enn hærra í neðri deildum Englands. Samkvæmt Daily Mail voru styrktarsamningar fótboltafélaga í efstu tveimur deildum Englands við veðmálafyrirtæki að skila liðunum samtals 100 milljónum punda á keppnistímabilinu 2021-2022.
Þetta gæti þó breyst á næstu misserum. Nú í vikunni hafa forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar biðlað til liða í deildinni að banna veðmálafyrirtækjum að auglýsa á búningum liðanna til að forðast lagasetningu frá breskum yfirvöldum. Aðrar deildir í Evrópu eru að feta í sömu fótspor. Þannig hafa yfirvöld á Spáni nú þegar bannað liðum í La Liga, efstu deild á Spáni, að auglýsa veðmálafyrirtæki á treyjum sínum og hafa sambærileg skref verið tekin í Belgíu og á Ítalíu.
Fréttin hefur verið leiðrétt er varðar veltu á veðmálamarkaði og markaðshlutdeild Lengjunnar. Beðist er velvirðingar á mistökunum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.