Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), sakar forystu Eflingar stéttarfélags um „ógeðfelldan blekkingarleik“ til að koma höggi á aðildarfélög SGS með „villandi og röngum upplýsingum“ er varða kjarasamninga SGS og Samtök atvinnulífsins (SA). Í færslu á Facebook furðar hann sig á vinnubrögðum Stefáns Ólafssonar, sérfræðingi hjá Eflingu.
„Ég hef séð Samtök atvinnulífsins velja sér tímabil til að fá sem bestu niðurstöðu máli sínu til stuðnings en skal fúslega viðurkenna að svona grófan blekkingarleik hef ég aldrei séð áður.“
Stefán hefur lýst því yfir að nýgerður kjarasamningur SGS samsvari kaupmáttarskerðingu á síðari hluta ársins 2022. Vilhjálmur furðar sig á þeirri framsetningu og segir að kauptaxtar verkafólks í kjarasamningi SGS séu að hækka um 10%-13% eða að meðaltali um 11,28%.
„Það sem Stefán fræðimaður gerir ásamt forystu Eflingar er að taka hækkun á vísitölu neysluverðs frá 1. apríl 2022 til desember 2022 sem var hækkun upp á 4,8% og segja að þessa hækkun á vísitölu neysluverðs verði að draga frá 11,28% hækkun á kauptöxtum sem SGS samdi um,“ segir Vilhjálmur.
„En um hvað snýst þessi ógeðfelldi blekkingarleikur fræðimannsins? Jú, hann sleppir launahækkunum sem komu á kauptaxta verkafólks 1. janúar 2022 og 10.500 kr. hækkun vegna hagvaxtarauka sem kom til framkvæmda 1. apríl 2022. En þessar tvær launahækkanir samtals að fjárhæð 35.500 kr. skiluðu 10,7% launahækkun.“
Stefán stundi óheiðarleg vinnubrögð
Vilhjálmur segir að Stefán og forysta Eflingar sleppi því að taka 10,7% launahækkunina, sem kom til framkvæmda á fyrstu mánuðum síðasta árs. Þess í stað velji Efling tímabil eftir að umræddar hækkanir komu til framkvæmda til þess að ná fram kaupmáttarrýrnun í sínum útreikningum.
„Það er umhugsunarefni að fræðimaður eins og Stefán Ólafsson sem ætlast til þess að hann sé tekinn alvarlega skuli voga sér að ástunda svona óheiðarleg vinnubrögð sem standast ekki eina einustu fræðilegu skoðun.“
Við mælingar á kaupmætti sé venjan að miða við þegar kjarasamningar koma til framkvæmda og þar til þeir renna út. Vilhjálmur segir að í lífskjarasamningum, frá janúar 2019 til októberloka 2022, hafi lægsti taxti hækkað um 37,62% en á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 20,5%. Kaupmáttaraukning nemi því 17 prósentustigum hjá verkafólki á lægsta kauptaxta.
„Ég óska félagsfólki Eflingar svo sannarlega velfarnaðar í sinni kjarabaráttu sem framundan er en mér sem formanni SGS ber skylda til að upplýsa og verja þegar svona óheiðarlegur blekkingarleikur er ástundaður. Það er alls ekki hægt að sitja undir hvaða óhróðri sem er,“ segir Vilhjálmur að lokum.