Vilhjálmur Vilhjálmsson, stjórnarformaður Hampiðjunnar, tók við 4,4 milljónum hlutum í félaginu, eða sem nemur 0,9% af heildarhlutfé, í arf á fimmtudaginn síðasta að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Markaðsvirði hlutarins nemur um 487 milljónum króna miðað við lokagengi Hampijðunnar í dag.
Vilhjálmur, sem er fyrrverandi forstjóri HB Granda sem heitir nú Brim, er sonur Sigríðar Vilhjálmsdóttur heitinnar sem lést fyrr á árinu, en hún var einn stærsti hluthafi Hampiðjunnar.
Samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa félagsins dagsettum 16. júní 2022 var dánarbú Sigríðar sjöundi stærsti hluthafinn með 2,65% hlut, sem er nærri 1,5 milljarðar króna að markaðsvirði miðað við gengi félagsins í dag.
Leiðrétt: Í upphaflegu fréttinni kom ranglega fram að Sigríður hafi verið eigandi Hótel Geysis. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.