Bankaeftirlit Tyrklands, BDDK, áformar að takmarka ráðningartíma bankastjóra við tíu ár. Tillaga eftirlitsstofnunarinnar, sem Bloomberg greinir frá, fylgir í kjölfar ásakana um Ponzi-svindl hjá banka með einum langsetnasta forstjóranum í tyrkneska bankakerfinu.

Samkvæmt tillögunni verður bankastjórum heimilt að gegna stöðu sinni hjá sama banka í mesta lagi í tíu ár. Eftirlitsstofnunin hyggst einnig takamarka ráðningartíma aðstoðarbankastjóra við tíu ár með möguleika á allt að fimm ára framlengingu með samþykki eftirlitsaðila.

Tillagan á rætur sínar að rekja til meintra fjársvika sem knattspyrnumennirnir Arda Turan, sem spilaði áður hjá Barcelona og Atletico Madrid, og Emre Belozoglu, sem spilaði fyrir Inter Milan og Newcastle United á sínum tíma, fóru með fyrir dómstóla.

Arda Turan lék með Atletico Madrid og Barcelona 2011-2018. Emre Belozoglu lék með Inter Milan á árunum 2001-2005 og Newcastle United frá 2005-2008.
© epa (epa)

Þeir sökuðu Secil Ezran, stjórnanda hjá Emirates NBD, dótturfélagi Denizbank, um að stýra 44 milljóna dala Ponzi-svindli árið 2022. Stjórnandinn er sakaður um að hafa lofað 250% ávöxtun á fjárfestingar í dollurum.

Saksóknarar lögðu fram ákæru gegn forstjóra Denizbank, Hakan Ates, fyrir meint hlutverk hans í fjársvikunum. Dómstóll vísaði málinu aftur til ákæruvalds m.a. vegna skorts á upplýsingum um fórnarlömb hinna meintu fjársvika og hversu mikið hinir grunuðu eiga að hafa grætt.

Hinn 65 ára gamli Ates lét af störfum í síðasta mánuði eftir að hafa gengt bankastjórastöðunni frá árinu 1997, eða í 27 ár. Hann stýrði Denizbank í gegnum talsverðan vöxt og yfirtöku á Emirates NBD árið 2019.

Samkvæmt dörgum að nýrri reglugerð á einnig að takmarka starfstíma útibússtjóra hjá sama banka við 4 ár í mesta lagi. Ef reglugerðin nær í gegn, þá munu tyrkneskir bankar hafa til 30. júní næstkomandi til að standast reglurnar.